131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:40]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er oft rætt um að ekki eigi að mismuna vörum í samfélagi okkar. Það er eins og jafnréttissjónarmið í lok 18. aldar, alla 19. öld og allt til okkar tíma að megi snúa gagnvart vörum vegna þess að þær hafi heilagan rétt á markaði. Vel má finna ýmislegt í því sjónarmiði, að það eigi ekki að mismuna vörum, en þá spyr maður líka: Hvað eru vörur og hvað eru ekki vörur? Hverjar vörur eru það sem eiga ekki heima á almennum markaði við hlið venjulegrar neysluvöru og hvernig stendur á því að m.a. íslenska löggjöfin mismunar, og er þó jafnrétti í heiðri haft a.m.k. í orði, milli vöru og vöru?

Það er ekki þannig að það sé bara áfengi sem bannað er að auglýsa heldur gilda líka takmarkanir um auglýsingar á tóbaki. Þær gilda einnig um ólögleg vímuefni. Þær gilda um spilliefni og eiturefni af ýmsu tagi — takmarkanir sagði ég, ekki bann endilega — þær gilda um ýmis lyf og þær gilda líka um skotvopn og fleiri tegundir vopna.

Löggjafinn og almenn skynsemi í landinu hefur talið að þessir hlutir, þó að þeir gangi kaupum og sölum, séu ekki vara í venjulegum skilningi þess orðs. Menn hafa talið að þar verði að koma til, menn geta kallað það forsjárhyggju ef þeir vilja, ákveðin neytendavernd og ákveðin samfélagskennd þar sem menn taka sig saman um að hefta markaðinn vegna þeirra verndarsjónarmiða sem uppi eru um hvern af þessum vöruflokkum.

Um áfengið og önnur vímuefni hefur oft verið sagt að hægt sé að skoða þau mál út frá fjórum pólum. Menn hafa talað um aðgengi, menn hafa talað um aldursmörk, menn hafa talað um verð og menn hafa talað um auglýsingar. Ef við förum yfir áfengismálin á síðustu 10–20 árum þá er alveg klárt að aðgengi að áfengi hefur aukist. Mér þykir það ekki slæmt. Mér þótti það ekki snjallt fyrir 20 árum, að ég segi ekki 30 árum, að hafa aðgengi að áfengi eins og það var þá, að stórir hlutar landsins væru áfengislausir í orði og menn þyrftu að fara langar leiðir eða panta sér vín í pósti o.s.frv. Það var heimskulegt kerfi. Við erum sem betur fer búin að breyta því. En við höfum aukið aðgengi að áfengi með fleiri sölustöðum, fjölgun vínveitingastaða o.s.frv. og við verðum að gera okkur grein fyrir því að það hefur áhrif.

Varðandi aldurinn þá er ég er einn af flutningsmönnum frumvarps um að færa áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár og tel að það eigi að fylgja sjálfræði. Ég geri mér líka grein fyrir því að það skref eykur hættu á ofneyslu áfengis og eykur hættu á þeim afleiðingum sem það hefur.

Verðið er hér allhátt og nú er einmitt komin af stað í samfélaginu ákveðin hreyfing um að reyna að lækka verðið, bæði vegna þess að það er eitt það hæsta í heimi og líka vegna þess að það hrekur frá ferðamenn sem við treystum alltaf meira og meira á og eigum að gera. Ég hef ákveðna samúð með því að reyna að lækka verð á áfengi, bæði þann hluta sem ríkið tekur til sín, sem er bróðurparturinn og líka álagninguna á áfengi á stöðunum í kringum okkur, sem er satt að segja ótrúleg þegar farið er að skoða það.

Þá er einn partur eftir af þessum fjórum, þ.e. auglýsingarnar, áfengisauglýsingar, sú kynning sem menn geta keypt sér fyrir fé. Auglýsingar eru að sjálfsögðu ekki slæmur hlutur í sjálfu sér en þær eru heldur ekki góður hlutur í sjálfu sér. Það er misskilningur sem menn vaða uppi með, ótrúlegustu menn, að auglýsingar séu sérstakur vottur um tjáningarfrelsi í landinu og séu í sjálfu sér algerlega hlutlausar og beri að hafa hag auglýsenda mjög fyrir brjósti í samfélagi okkar. Auglýsingar eru eins og hver annar hlutur. Þær eru tæki á markaði sem menn kaupa sér með peningum sínum sér til framdráttar. Það er ekkert að þeim frekar en öðrum tækjum sem menn beita á markaði en við verðum að horfa á þær sem slíkar.

Varðandi auglýsingarnar höfum við líka gefið eftir, ef maður vill nota það orðalag, eða aukið veg áfengisins, tekið þá áhættu að áfengisneysla aukist og afleiðingar hennar verði verri. Það hefur gerst með því að klausan í áfengislögunum, um að kynna megi vörumerki sem séu sameiginleg áfengri og óáfengri vöru, hefur verið gróflega misnotuð. Þessi misnotkun hefur leitt til augljósra áfengisauglýsinga, dulbúinna eða ekki, þvert á lögin. Ég segi að þær gangi þvert á lögin. Ég tel það ekki fylgja anda laganna að segja að um sé að ræða léttbjór með sjö punkta letri neðst í heilsíðuauglýsingu eða að eyða í það einni sekúndu í langri sjónvarpsauglýsingu, að í raun sé hér ekki verið að auglýsa bjórtegundina Heineken eða Egils Gull heldur er það sem sé léttbjórsútgáfan sem verið sé að auglýsa meðan öllum er ljóst að svo er ekki. Þetta er ekki heiðarlegt og þetta er lögbrot.

Það er sorglegt að meðal stjórnvalda skuli vera deyfð við að framfylgja þessum lögum, við að taka fyrir brot á mjög skýrri löggjöf sem hefur að vísu einn krók sem hægt er að komast fram hjá. Það er enn þá sorglegra að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, og reyndar fleiri hans líkar en sérstaklega hann, virðist láta sér þetta vel líka. Þeir svara hér í ræðustól með útúrsnúningi og skætingi þegar þeir eru spurðir um þetta og segja mönnum að taka sjálfa að sér störf lögreglumanna, saksóknara og dómara þegar spurt er um hvort ekki væri vegur að reyna að framfylgja þessum lögum. Það er ákaflega undarlegt að standa í þeim sporum að þau stjórnvöld sem eiga að sjá um að lög séu haldin haldi hlífiskildi yfir lögbrotum af þessu tagi. Það er enn þá skrýtnara vegna þess að þau lögbrot sem hér er um að ræða, áfengisauglýsingarnar, eru nú kannski saklausastar gagnvart þeim sem eru komnir nokkuð við aldur og hafa mótað sér einhverjar venjur í þessum efnum, en eru hættulegastar ungu fólki, fólki sem er rétt að komast á þroskaaldur og auglýsingarnar miðast greinilega að. Það geta menn kannað með því að líta á þessar auglýsingar en þær höfða fyrst og fremst til ungs fólks með því að reyna að tengja áfengistegundina við það sem ungu fólki þykir flott og töff og það sem er sexí og það sækist eftir á því aldursskeiði.

Það er athyglisvert að þessi klausa sem nú er misnotuð kom inn um leið og bjórinn, með bjórlögunum, ég held að ég fari rétt með, sem ég þarf ekki að segja að ég tel að hafi verið jákvætt skref á sínum tíma. Ég tel að það hafi verið fullkomin della hve lengi það undarlega ástand varði að ekki var hægt að fá bjór á Íslandi. Látum það nú vera. En klausan kom inn vegna þrýstings frá innlendum framleiðendum sem töldu það ekki viðunandi að vörumerki þeirra, á þeim bjór sem þeir framleiddu, væru lítt þekkt í því samhengi meðan flestir Íslendingar könnuðust við algengustu vörumerki á bjórtegundum í Evrópu og Ameríku. Það var kannski aldrei sagt upphátt hver væri ástæðan fyrir þessu en þetta var þannig og það upplýsist hér með í þingtíðindum fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. Þessi klausa átti í raun að jafna kost hinna íslensku framleiðenda á við hina erlendu. Ef menn hefðu þorað að tala upphátt um það á þeim tíma þá hefði líka verið eðlilegt að binda hana í tíma þangað til menn vissu að hér væri framleiddur bjór hjá Agli Skallagrímssyni og hjá Víkingi og hvar sem hann var nú framleiddur og er framleiddur. En það er á þessari klausu, á þeirri sögulegu tilviljun, sem menn komust fram hjá lögunum og tóku upp það auglýsingaástand sem nú ríkir.

Ég segi fyrir mig að ég er hlynntur auglýsingabanni. Ég tel að áfengi sé ekki eins og hver annar varningur, áfengi er vímuefni og á þeirri staðreynd verður öll umræða um áfengi að byggjast. Það er vímuefni og í sjálfu sér ekkert öðruvísi, betra eða skárra en önnur vímuefni sem við höfum þó bannað. Það eina sem það hefur fram yfir þau eða er öðruvísi við það er að það á sér lengri sögu í menningarheimi okkar og í hefð okkar. Það er að vissu leyti hluti menningarinnar og að sumu leyti vildi maður ekki án þess vera. En okkur hefur samt gengið ansi illa með þann litla menningarhluta, hvort sem maður talar um Evrópu sem heild eða sérstaklega um Íslendinga sem eiga sér vægast sagt ákaflega skrautlega áfengissögu og þeim mun verri sem áfengið var sterkara. Ætli aldirnar 17., 18. og sú 19. séu nú ekki hvað frægastar í því en á 20. öld höfum við orðið vör við miklar afleiðingar þess og erum í raun að fjalla um þær á hverju einasta ári, hverju einasta hausti, í fjárlögunum, þar sem milljónatugum og hundruðum er varið í að fást við afleiðingar áfengisneyslunnar.

Ég er ekki maður til að mæla á móti áfengisneyslu og ætla ekki að gera það hér en við verðum að hafa það í huga að það er ekki bara grín og gaman, glens og hlátur sem við mætum í þessum efnum.

Í öllum grannlöndum okkar eru uppi takmarkanir eða bann við áfengisauglýsingum. Ég nefni dæmi, sem ég hef áður nefnt í þessum stól, Frakkland, hið mikla vínland Frakkland, þar sem drýpur af gullnum bikurum hið rauða blóð þrúgnanna. Þar var áður fullkomið frelsi í áfengisauglýsingum. Svo er ekki lengur heldur er áfengisauglýsingum þannig varið þar að þær eru leyfðar á ákveðnum stöðum. Þær eru t.d. ekki leyfðar í sjónvarpi — slíkar auglýsingar eru þó sýndar í sjónvarpi á Íslandi — og þær eru leyfðar með þeim skilyrðum að þar komi aðeins fram mynd af umbúðum, innihaldi og vörumerki. Þeim mega fylgja upplýsingar um framleiðslustað, áfengismagn o.s.frv. Menn kannast auðvitað við að framleiðslustaðurinn skiptir verulega miklu máli í þeirri tegund áfengis sem við erum að tala um þar, sem er léttvínin. Jafnframt á að vera skýr viðvörun á öllum áfengisauglýsingum í Frakklandi og þannig er það. Þegar maður fer niður í metró í París og sér auglýst þar rauðvín sem er að koma á markaðinn eða þykir sérlega fínt og gott þá fylgir því auglýsing um að alkóhólismi sé skæður sjúkdómur sem geti eyðilagt bæði líf manna og farið illa með líffæri þeirra, enda er skorpulifur Frakka víðfræg um heiminn.

En þessar frönsku reglur, sem ég hygg að séu u.þ.b. 15 ára gamlar, í þessu formi a.m.k., líta þannig út þegar maður kemur til Íslands og ber saman við ástandið hjá okkur að áfengisauglýsingar á Íslandi, þar sem þær eru bannaðar, eru mun hamslausari en í hinu mikla vínlandi Frakklandi þar sem þær eru leyfðar með þessum ákveðnum takmörkunum. Hér komast menn upp með alla hluti. Hæstv. dómsmálaráðherra vísar eitthvert annað og er bara að æfa lögreglukórinn þegar hann á gæta að því að lögum sé framfylgt í landinu.

Ég verð að segja fyrir mig að ég er reiðubúinn að setjast yfir endurskoðun á þessu auglýsingabanni ef menn vilja það, m.a. vegna aukinnar alþjóðlegrar tengingar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndi réttilega. En ég vek athygli á því að alls staðar í kringum okkur er í gangi barátta. Menn glíma við þennan vanda sem fylgir áfenginu ekki síður en öðrum fíkniefnum, sem menn vilja ekki leyfa auglýsingar á, eða hvað? Og sem menn vilja ekki leyfa hér á landi, eða hvað? Þau eru þó mörg hver síst áhrifameiri en áfengið. Alls staðar er barist gegn þessu og alls staðar gilda auglýsingatakmarkanir eða auglýsingabann, auðvitað eftir hefðinni í hverju landi. Ég er reiðubúinn að ræða þau mál. En ég vil hins vegar að lög standi og mótmæli því að menn geri það í krafti peninga sinna, innflytjendur og þeir sem auglýsa, fjölmiðlar sem þurfa auðvitað virkilega á auglýsingapeningunum að halda, að brjóta lögin átölulaust. Þeir eiga auðvitað sinn rétt en það verður að fylgja lögunum. Almenningur á líka sinn rétt og það unga fólk sem þarf sérstakrar athygli okkar, fólk undir áfengiskaupaaldri eða rétt á mörkunum sem er að velja sér lífsbraut og er að þroskast og koma sér upp lífsvenjum, á líka sinn rétt. Það er okkar að verja þann rétt. Það er stjórnvalda að standa við þau lög sem hér eru sett til þess að verja þann rétt.

Ég vil segja það um frumvarpið sjálft að mér sýnist að þar sé tiltekin mjög góð leið. Við förum þar í kjölfar Norðmanna sem virðast nokkuð snjallir í þessum efnum. Ég styð þetta frumvarp. Ég vil benda þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á það í fullum friði og vinsemd að mál af þessu tagi þarf ekki nauðsynlega að bera fram sem flokksmál. Ég hefði t.d. verið reiðubúinn að vera flutningsmaður þessa máls með þeim ef þeir hefðu viljað það en þeir geta nú kastað til baka í mitt glerhús í þeim efnum, ég viðurkenni það líka. Ég hvet til þess að í allsherjarnefnd verði farið yfir þetta mál í fullri alvöru og að það komi aftur til atkvæða í þinginu.

Ég skora á þá sem hér eru viðstaddir og þingheim allan að íhuga þetta og fylgja þessu máli. Ég vil sérstaklega skora á fjarstaddan hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson að sinna þessu vel hjá sínu fólki í allsherjarnefnd og í þingflokknum. En hann hefur, þrekmaður sem hann er, þurft að standa einn í þessu og bogna nokkuð í baráttumáli sínu, heilbrigðisráðherra á Norðurlöndum og gjörvallrar heimsbyggðarinnar, fyrir fálæti hins raunverulega yfirvalds í málinu sem er hæstv. áfengisauglýsingadómsmálaráðherra Björn Bjarnason.