131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:57]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem mér fannst tala í þá veru að engir færu á erlenda grund nema alþingismenn. En í restina kom hann inn á það mál sem sneri að áfengisauglýsingum í Frakklandi. Ég bara held að við hljótum að geta orðið sammála um að taka þá stefnu upp hvað auglýsingar á áfengi áhrærir.

Mikið hefur nú breyst frá því að fimmtíumenningarnir rituðu undir bréf um að banna sjónvarpssendingar frá Keflavíkurflugvelli fyrir það að þær hefðu svo slæm áhrif á íslenska tungu. Nú er öldin önnur, margir komnir með móttökudiska fyrir gervihnattaútsendingar og geta jafnvel haft aðgang að 100 erlendum sjónvarpsstöðvum. Flestir eru í áskrift að Stöð 2 þar sem eru allt að 10–24 stöðvar vel aðgengilegar og við sitjum oft með börnum eða barnabörnum okkar og horfum á spennandi knattspyrnuleiki í beinni útsendingu frá erlendri grund.

Hverjir styrkja þessar útsendingar og hvað kemur í miðjum klíðum, í hálfleik? Hvaða auglýsingar birtast þar? Bjórauglýsingar, þá birtast bjórauglýsingar. Ég hef ekki orðið var við að áfengisneysla ungmenna hafi nokkuð aukist, hvorki í íþróttahreyfingunni, þar sem mikið er fylgst með þessum leikjum eða annars staðar. Mér finnst út í hött að ætla að banna þessar sjónvarpsauglýsingar á Íslandi. Átta menn sig ekki á því að allar leiðir eru nú styttri en áður var? Íslendingar fara nú í tugþúsundavís á erlenda grund á hverju einasta ári og umgangast áfengi og sjá áfengisauglýsingar, verður strax vart við þær í blöðunum í flugvélunum. Mér finnst að menn fari langt aftur í gráa forneskju með því að vilja banna áfengisauglýsingar.