131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[15:03]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held því miður að við klárum ekki þessa umræðu hér, ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem virðist ekki hafa litið á það þingmál sem hér er til umfjöllunar.

Ég fagna því auðvitað ef það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að áfengi sé í raun og veru nánast skaðlaust. Vegna þess að nútíminn er orðinn þannig að við höfum færst nær öðrum löndum verðum við að taka nokkurt mið af því sem þar gerist, meira en áður sem betur fer. Þó er hv. þingmaður sennilega ekki á því að ganga t.d. í Evrópusambandið, sem við erum, alþjóðasinnar og nútímamenn aðrir. Það þýðir þá að áfengi sé þar með orðið eiginlega hættulaust og heilbrigt og gott fyrir hvern mann, á hvaða aldri sem hann er, ungabörn, stálpuð börn, unglinga, gamalmenni og nánast bara alla. Hann virðist ekki hugleiða neitt að einhver vandi kunni að stafa af áfengisneyslunni. Hafi hann hlustað á mig fór ég ekki með annað en það sem er stafróf í fræðum forvarna og áfengismeðferðar, að einkum fjórir stjórnvaldsþættir hafa áhrif á áfengisneysluna. Ég rakti það að hinir þrír þættirnir hafa með góðu eða illu, að mörgu leyti á eðlilegan hátt, leitt til þess að mörkin lækka gagnvart áfengi og ég lýsi vilja mínum til að standa í lappirnar í fjórða málinu sem er það að takmarka verkfæri markaðarins í þessum efnum og halda auglýsingabanninu áfram.

Það er þó aðeins annar helmingurinn af málinu. Hinn helmingurinn er sá að lög í landinu gildi fyrir alla þá sem þau eiga að gilda um. Það er meginmálið sem við alþingismenn eigum að líta á og það er meginmálið fyrir hæstv. dómsmálaráðherra sem á að vera sérstakur vörður og verndari þessara laga í málaflokknum áfengismál.