131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:31]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að ræða framtíðaruppbyggingu bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Mikil vinna hefur verið lögð í að skilgreina og skoða hvert eigi að vera hlutverk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í flóru heilbrigðisstofnana á landinu og hvaða þjónusta það er sem eðlilegt og sjálfsagt er að gera kröfu um að veitt sé í heimabyggð.

Upptökusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er nú um 17 þús. íbúa byggð og til viðbótar millilandaflugvöllur okkar og allir sem þar starfa eða eiga erindi á völlinn vegna ferðalaga eða annars. Mikil og aukin umferð hefur verið um Keflavíkurflugvöll og því þarf að taka tillit til þess þegar fjallað er um fjölda þeirra sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þjónustar eða á að þjónusta.

Í mars 2003 skipaði hæstv. heilbrigðisráðherra nefnd til að vinna tillögur um framtíðarþróun og skipulag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þetta var m.a. gert í framhaldi af mikilli óvissu sem skapaðist í kjölfar þess að heilsugæslulæknar stofnunarinnar hurfu frá störfum sínum í nóvember 2002 og algjörri nauðsyn þess að endurskipuleggja allt starf í kjölfarið. Starf nefndarinnar var tvíþætt og snerist annars vegar um að gera tillögur um framtíðarstarfsemi bæði heilsugæslu- og sjúkrahússviðs og einnig um uppbyggingu og not á húsnæði stofnunarinnar til framtíðar litið. Nefndin starfaði alltaf náið með ráðuneyti heilbrigðismála, enda sex af sjö nefndarmönnum beint eða óbeint á vegum ráðuneytisins. Ég hef haldið því fram að niðurstöður nefndarinnar séu ekki munaðarlausar, heldur skilgetið afkvæmi heilbrigðisráðuneytisins og á ábyrgð þess.

Nefndin skilaði tillögum sínum þann 18. nóvember 2003 til hæstv. heilbrigðisráðherra í formi skýrslu en helstu niðurstöður hennar höfðu áður verið kynntar sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum á aðalfundi þeirra. Óhætt er að segja að góð sátt hafi skapast um tillögur nefndarinnar og heimamenn á Suðurnesjum séð þær sem grundvöll þess að byggð yrði upp heildstæð almenn sjúkrahúsþjónusta sem stæði til boða allan sólarhringinn, alltaf.

Nokkuð vel hefur tekist að byggja upp almenna sjúkrahúsþjónustu á svæðinu undanfarin missiri og er það ekki síst að þakka góðu starfsfólki sem leggur metnað sinn í að veita eins góða þjónustu og mögulegt er og telur nauðsynlegt að heilbrigðisstofnunin geti veitt íbúum á Suðurnesjum fullkomna bráðaþjónustu allan sólarhringinn.

Þrátt fyrir aukna þjónustu og góðan vilja stendur eftir sú staðreynd að ekki er enn til staðar samfelld og stöðug vaktþjónusta á skurðstofu. Það hlýtur þó að vera nauðsynlegt til að geta veitt fullkomna bráðaþjónustu, enda segir svo í helstu niðurstöðum skýrslu nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samfelld vaktþjónusta á skurð- og svæfingarsviði sem og vaktþjónusta lyflækna eru meðal mikilvægra forsendna þess að unnt sé að efla starfsemina.“

Hluti af starfi nefndarinnar var að skilgreina einnig hvenær og hvernig þriðja hæð í svokallaðri D-álmu sjúkrahússins yrði komin í notkun en lengi hafa heimamenn beðið þess að starfsemi kæmi í alla viðbygginguna við sjúkrahúsið. Niðurstaða nefndarinnar var að þriðja hæðin yrði innréttuð fyrir tvær skurðstofur, speglunarherbergi og tólf rúma legudeild. Einnig að öll D-álma yrði komin í notkun strax á þessu ári.

Hæstv. ráðherra heilbrigðismála staðfesti það svo með yfirlýsingu sem hann skrifaði undir 1. júní 2004 að hann væri sama sinnis. Héldu menn þá að nú væri björninn unninn og bráðaþjónusta yrði eins góð og mögulegt væri í kjölfarið. Í yfirlýsingu hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur að undanförnu haft til skoðunar tillögu nefndar um framtíðaruppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, þróun og skipulag 2004–2010. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfestir hér með þá framtíðarsýn er fram kemur í tillögunum og lýsir því yfir að hún er í samræmi við stefnumörkun ráðuneytisins um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og þá stefnumörkun sem unnið er að á landsvísu.“

Ég spyr því ráðherra eftirfarandi spurninga í framhaldi af því að enn hefur þessi þjónusta ekki komist á:

Hver er talinn vera viðbótarkostnaður við núverandi kostnað við að reka samfellda vaktþjónustu á skurð- og svæfingarsviði allan sólarhringinn?

Telur ráðherra nauðsynlegt að á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði rekin samfelld vaktþjónusta á skurð- og svæfingarsviði?

Ef svo er, hvenær má þá vænta að slík þjónusta komist á?