131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:43]

Kjartan Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir þessa fyrirspurn og þá umræðu sem hér mun eiga sér stað varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ég þakka jafnframt hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Meginatriðið í þessu finnst mér vera það að í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja búa eins og fram hefur komið 17 þús. manns. Þetta er stórt svæði, það eru margir íbúar og það eru margir notendur að þessari stofnun sem við þurfum að huga að. Auk þess, eins og reyndar kom fram í framsögu hér, þjónar þessi stofnun flugvellinum í Keflavík þar sem gríðarlega margir farþegar fara um og við eigum von á aukningu, bæði íbúafjölgun á svæðinu og aukningu ferðalanga um flugvöllinn. Þess vegna er stofnunin mjög mikilvæg á þessu landsvæði.

Meðal annars þess vegna þarf að huga að framtíðinni og það hefur verið gert, eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, með þeirri skýrslu sem kynnt var í nóvember 2003. Þar eru gerðar klárar tillögur um framtíð stofnunarinnar og ég hygg að nú þurfum við að beita okkur fyrir því að sú skýrsla og þeir fjármunir sem til stofnunarinnar þurfi að koma fáist á fjárlögum. Það er verkefni þingsins til vors og til loka fjárlagagerðar fyrir næsta ár. Það er verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í.