131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:54]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi og vil gjarnan þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þjónar um 17 þús. íbúum á Suðurnesjum og því er nauðsynlegt að tryggja rekstur stofnunarinnar og greiða úr þeim aðkallandi verkefnum sem bíða úrlausnar. Til þess að hægt sé að tryggja bráðaþjónustu allan sólarhringinn alla daga vikunnar þarf að útvega fjármagn til að klára skurðstofu á þriðju hæð D-álmunnar í samræmi við samþykkta framtíðarsýn stofnunarinnar. Um mitt ár verða teikningar og útboðsgögn tilbúin og það má ekki undir neinum kringumstæðum láta það ferli stöðvast sem nú þegar er í gangi. Þetta er nauðsynlegt til að hægt sé að fá hæft starfsfólk til starfa en það er ekki hægt að bjóða upp á þá aðstöðu sem fyrir er í dag.

Það er gríðarlega mikið öryggisatriði að þessi þjónusta sé til reiðu heima í héraði þegar bráðatilfelli koma upp. Einnig er það mikill sparnaður og hagræðing að bjóða upp á þessa þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í stað þess að reiða sig á stóru sjúkrahúsin í Reykjavík sem þegar eru ofhlaðin.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið jákvæður í þessu máli og staðfest tillögur er fram komu í fyrstu fimm köflum framtíðarsýnarinnar. Þá hefur verið unnið að því að fullvinna kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Það er mikilvægt að koma þessum tillögum í framkvæmd og að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefji undirbúning samhliða þessu sem tryggi það að hæstv. heilbrigðisráðherra geti gert bindandi samning um framtíðaruppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Sóknarfærin eru mikil á Suðurnesjum. Þetta er öflug stofnun með margt hæft starfsfólk sem er metnaðarfullt fyrir hönd stofnunarinnar og samfélagsins. Mikil þörf hefur verið á framkvæmdum utan húss og hefur því verki verið áfangaskipt og þarf einnig að tryggja fjárveitingu til að ljúka því.

Hæstv. forseti. Mikið og gott starf hefur verið unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á síðustu árum og allt miðar að því að veita betri og víðtækari þjónustu fyrir íbúa Suðurnesja. Það er mjög mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið og fjárveitingavaldið beini augum sínum að þessu svæði til áframhaldandi uppbyggingar.