131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna frumvarpinu sem við ræðum um, um breytingu á lögum um almannatryggingar. Hér er stigið gott skref í átt að því að bæta tannlæknaþjónustu, einkum við eldri borgara. Með þeim breytingum sem hér gert ráð fyrir er tekið mið af nútímatannlækningum. Það gekk auðvitað ekki að ekki mætti greiða fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr eldri borgara og örorkulífeyrisþega. Það er full ástæða til að fagna þessari tillögu hæstv. heilbrigðisráðherra og sömuleiðis því að aldursviðmið í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir tannlæknaþjónustu barna skuli fært upp og miðist við börn yngri en 18 ára. Allt eru þetta skref í rétta átt til að bæta þjónustu við landsmenn.

Ég rifja það upp að á síðasta þingi beindi ég fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um tannheilsu barna og lífeyrisþega, m.a. um hvort rýmka ætti þær reglur sem gilda um greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði lífeyrisþega. Þá nefndi hæstv. ráðherra að hann hefði einmitt hugað að því að fara þá leið sem við ræðum í dag. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi staðið við það og að þetta sé að verða að veruleika.

Öðru máli gildir um tannheilsu barna. Ég vil rifja upp að þegar við ræddum málið á síðasta þingi hafði það komið fram að barnalæknar og sérfræðingur í samfélagstannlækningum sagði að hópur íslenskra barna byggi við tannskemmdir, sársauka og sýkingar, sökum þess að foreldrar þeirra hefðu ekki efni á að fara með þau til tannlæknis og því stefndi í tvískipt tannheilbrigðiskerfi í landinu. Á þeim tíma kom einnig fram að formaður tannverndarráðs lét koma fram að 30% 16 og 17 ára unglinga færu ekki til tannlæknis og 50% þriggja ára barna færu heldur ekki til tannlæknis. Sömuleiðis hafði komið fram að tryggingayfirtannlæknir taldi að greiða ætti tannlæknakostnað barna að fullu.

Hæstv. ráðherra bar því þá fyrir sig að hann teldi að fara þyrfti fram rannsókn á tannheilsu barna áður en ákveðið yrði hvort úrbóta væri þörf eða ekki. Hann boðaði slíka rannsókn og ég vil að gefnu tilefni spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi niðurstöður úr þeirri rannsókn. Ég tel afar brýnt, virðulegi forseti, að gengið verði í að bæta tannlæknisþjónustu við börn og unglinga. Þær voru vissulega sláandi tölurnar, sem fram komu á síðasta þingi, um tannskemmdir 16 og 17 ára unglinga, sem eru alveg furðulega miklar. Og þó kannski ekki, þegar við hugum að því hve dýrar tannlækningar eru. Kannski var töluvert til í því hjá þeim sem héldu því fram að hér stefndi í tvískipt tannheilbrigðiskerfi.

Ég tek heils hugar undir með tryggingayfirtannlækni. Það á að greiða tannlæknakostnað barna að fullu og gera foreldrum, hvernig svo sem efnahagur þeirra er, fært að fara með börn sín með eðlilegu millibili til tannlæknis til forvarna og til að tannheilsa allra barna, alveg óháð efnahag, sé í lagi.

Ég tek einnig undir það sem fram kom hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, sem hefur verið iðin við að nefna tannréttingarnar og hve brýnt er að fara út í að greiða fyrir tannréttingar. Tannréttingar sem foreldrar þurfa oft og tíðum að kaupa fyrir börn sín sem á þurfa að halda eru óheyrilega dýrar og það er ófært, virðulegi forseti, að hér á landi sé einungis greitt þegar um alvarlega fæðingargalla er að ræða. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum sé kunnugt um það hvernig þetta er t.d. á hinum Norðurlöndunum. Er þjónusta hins opinbera varðandi tannréttingar, t.d. barna, betri þar? Ég veit ekki hvernig því er háttað en mér finnst mjög lítill stuðningur við fjölskyldur sem lenda í miklum útgjöldum vegna tannréttinga barna. Fólk verður oft að fara í slíkar aðgerðir, alveg óháð efnahag, taka til þess dýr lán o.s.frv. Fólk þarf iðulega að greiða hundruð þúsunda fyrir þetta. Nefndar hafa verið tölur eins og ein milljón, t.d. ef um fleiri börn en eitt er að ræða.

Ég vænti þess að ráðherra hafi lagt það niður fyrir sér hvernig hann vill standa að þeim málum, annars vegar varðandi tannréttingarnar og þá komi skýrar fram hvað hann vill gera í því efni og ekki síður að fara að tillögu tryggingayfirlæknis, um að tannlæknakostnaður barna verði endurgreiddur að fullu. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hver fyrirstaðan er eins og staðan er núna.

Ég vil líka nota tækifærið til að spyrja: Hver er staðan varðandi endurgreiðslur á tannlækningum? Það hafa verið í gangi, eins og við þekkjum, tvær gjaldskrár, gjaldskrár tannlækna sem eru miklu hærri en endurgreiðslugjaldskrá sem Tryggingastofnun greiðir eftir. Gjaldskrá tannlækna hefur farið verulega fram úr endurgreiðslugjaldskránni, sem hefur bitnað harkalega á þeim sem þurfa að sækja sér tannlæknaþjónustu.

Ég ætla ekki að endurtaka þessar spurningar. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi náð niður því sem ég spurði um, sem ég tel að væri gott að fá svör við, sem innlegg inn í 1. umr. um þetta ágæta mál ráðherrans.