131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:41]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er löngum svo, þegar menn fjalla um góð mál og góð réttindi, að þá fagna allir sem einn kór. Það er eins og enginn eigi að borga. Það er sennilega guð almáttugur sem borgar eins og oft.

Þetta er furðuleg umræða. Að sjálfsögðu er þetta borgað. Þetta er borgað með sköttum allra landsmanna. Þetta er borgað með sköttum einstæðra mæðra, með sköttum þeirra sem eiga að vinna uppi á Kárahnjúkum eða annars staðar. Þetta er borgað af fólkinu í landinu. Þessu geta menn ekki bara fagnað einróma eins og enginn borgi.

Hér er tekið upp það nýmæli að greiða tannviðgerðir, auka við það sem greitt er, vegna þess að tannheilsa þjóðarinnar hefur batnað. Það er í sjálfu sér ágætt. En ég spyr: Á ekki fólkið eignir og tekjur til að greiða þetta? Nú er það svo að staða aldraðra er afskaplega misjöfn. Það kemur fram í könnunum að þeir eiga miklar eignir. Ef maður skoðar æviferil mannsins byrjar hann yfirleitt með tvær hendur tómar en kaupir íbúð og safnar alla ævina upp ákveðnum eignum. Þegar hann kemst á eftirlaun er hann yfirleitt kominn með skuldlausa eign. Sumir erfa, en hverjir erfa í landinu? Hvaða fólk er það sem deyr? Það er fólk á aldrinum 80–90 ára gamalt að öllu jöfnu. Hverjir erfa það? Þeir sem eru 50–60 ára. Það er ekki unga fólkið sem erfir. Það er eldra fólkið sem erfir, þeir sem eru að fara á eftirlaun. Það fólk eldist og fer með eignina til efri ára þannig að eignir þjóðarinnar rúlla um hærri aldursflokka í gegnum erfðir.

Nú er búið að lækka erfðafjárskattinn þannig að arfur mun í auknum mæli safnast í eldri aldursflokkum og þangað koma alltaf nýjar eignir úr vinnuævi allra landsmanna. Staða aldraðra er því alls ekki slæm, þ.e. ekki allra. Hún er tiltölulega góð og ég geri ráð fyrir því að margur aldraður sem vill fá bætur hér hafi það betra en þeir sem borga bæturnar með sköttum sínum, t.d. einstæðar mæður, einstæðir foreldrar og aðrir sem standa illa. Venjulegt fólk sem borgar mikla skatta, með barnahjörð og ómegð, er oft og tíðum verr sett þótt það hafi háar tekjur. Ég ætla því ekki að taka undir þennan gleðikór sem sér ekkert annað en gleði í að auka útgjöld ríkisins. Þar fyrir utan er þetta mjög opið. Annars vegar er talað um að þetta kosti 40 millj. kr., að sú fjárveiting sé til staðar og svo stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins að ef 10% einstaklingar óski eftir greiðsluþátttöku, þá geti þetta orðið 200–240 millj. kr.

Hvað ætla menn svo að gera þegar fjárveitingin er búin? Ég spyr að því. Ætla menn þá að skerða bæturnar? Hvað segir jafnræðisreglan þá ef sumir fá bætur af því að þeir voru nógu snemma á ferðinni og aðrir fá engar eða skertar bætur? (Gripið fram í: Þá koma fjáraukalögin.) Þá koma fjáraukalögin. Þá á sem sagt að láta Gunnu og Jón í frystihúsinu borga meira. Þetta er nefnilega akkúrat það sem gerist. Þetta er galopinn peningakrani og ég vara við þessu þó að ég geti alveg tekið undir góða málið. Þetta er að sjálfsögðu gott mál.

Ég mundi þó vilja að menn færu varlega í þetta og ég skora á hv. heilbrigðisnefnd sem fær frumvarpið væntanlega til skoðunar að hún skoði vel kostnaðaraukann og setji undir þann leka ef það skyldu fara að renna út miklir peningar til jafnvel fólks sem á miklar eignir og er sumt hvert með góðan lífeyri. Það eru ekki allir með lélegan lífeyri. Menn tala alltaf bara um lífeyri almannatrygginga en sem betur fer erum við með lífeyrissjóði í landinu og þeir borga annað eins í lífeyri og almannatryggingarnar. Einhvers staðar kemur það fram. Það er aldrei rætt um það í umræðunni, aldrei, menn tala alltaf um lágmarkslífeyri almannatrygginga, það lágmark sem menn geta haft. Margir eru með mjög góðan lífeyri, bæði örorkulífeyri og ellilífeyri, sem betur fer, bara vel tryggðir. Menn eru með 100–200 þús. kr. í lífeyri frá lífeyrissjóði plús svo frá almannatryggingum, sem betur fer. Ég spyr: Er rétt að skattleggja þá sem eru jafnvel með lægri laun og meiri ómegð til að borga fyrir þá sem hafa bæði miklar eignir og góðar tekjur?

Auðvitað er staða aldraðra misjöfn. Það er til fólk sem á engar eignir eftir allt ævistarfið vegna einhverra mistaka í fjárfestingum eða slíku og hefur líka lítil réttindi í lífeyrissjóði þó að lífeyrissjóðirnir séu búnir að starfa frá 1974. Síðan þá er búin að vera lagaskylda að borga í lífeyrissjóð. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem ekki eru með réttindi þrátt fyrir það og það er rétt að taka tillit til þeirra.

Ég er samt ekki alveg eins fagnandi og aðrir þingmenn yfir þessum útgjöldum sem lögð eru á ríkissjóð.