131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að ferskir vindar leiki um sali þegar hv. þm. Pétur Blöndal fer að ræða um almannatryggingar. (Gripið fram í.) Ja, kannski daunillur, ég veit það ekki, við skulum bara vega það og meta.

Það er alveg furðulegt að maður skuli alltaf þurfa að minna hv. þingmann á það að skattkerfið er hér sem jöfnunartæki. Inni í reglunum sem við erum að fjalla hér um er jöfnunartæki vegna þess að það er endurgreitt miðað við hvaða tekjur fólk er með. Þeir sem eru mjög tekjulágir eru með fullar greiðslur frá almannatryggingunum og fá þar af leiðandi lítið greitt annars staðar frá og sumir ekki neitt, þeir fá meiri greiðslur. Síðan minnka endurgreiðslurnar á tannlæknakostnaðinum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum eftir því sem þeir hafa meiri tekjur.

Það er sátt um það í samfélaginu að nota skattkerfið sem jöfnunartæki. Við greiðum skatta af tekjum okkar til þess síðan að njóta þess þegar við þurfum á því að halda, þegar við erum gömul eða veik og getum ekki staðið straum af ýmsum kostnaði eins og tannlækningum. Ég nefni fólk sem er t.d. á hjúkrunarheimilum og fær 100% endurgreitt, það fólk hefur mjög litlar tekjur, margt hvert, og er kannski aðeins með vasapeninga sem eru mjög lágir. Hér er sem sagt komið til móts við þessa hópa.

Hv. þingmaður minntist á tannréttingarnar. Það er mjög mikill baggi á barnafjölskyldum þar sem eru ættgengar tannskekkjur að þurfa að standa straum af tannréttingum margra barna. Það hleypur á hundruðum þúsunda, fer jafnvel yfir milljón og milljónir.