131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:50]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að margir hv. þingmenn líta á skattkerfið sem jöfnunartæki. Ég geri það ekki. Ég tel skattkerfið eiga að afla ríkissjóði tekna til þess að borga velferðarkerfið, (ÁRJ: Það er það …) og ég mundi ekki leggja aðaláherslu á það að jafna tekjurnar á kostnað þess að fá inn tekjur til ríkissjóðs.

Það hefur einmitt sýnt sig að þegar menn hætta að líta á skattkerfið sem tekjujöfnun fer það að skila ríkissjóði miklum tekjum, þegar hætt er undanþágum og öðru slíku í kerfinu fer það að skila miklu meiri tekjum og kakan stækkar og stækkar, eins og hún hefur gert undanfarinn áratug eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók við og eitthvert vit fór að komast í þessi mál.

Varðandi að þetta sé tekjujöfnun, hvað ætlar hv. þingmaður að segja um það ef manneskja sem á einbýlishús upp á 50 millj. fær bætur frá manni sem á ekki neitt og borgar skatta af tekjunum sínum? Sá sem á stóra húsið getur verið algjörlega skattfrjáls vegna þess að hann hefur engar tekjur. Hvað ætlar hv. þingmaður að segja, er þetta tekjujöfnun? Er þetta réttlátt? Er þetta sanngjarnt? Það finnst mér ekki.

Það vill oft þannig til að þegar menn nota svona kerfi til að „jafna tekjur“ skjóta þeir sig í fótinn og gera akkúrat það öfuga, auk þess sem allir fá a.m.k. 50% samkvæmt þessum reglum sem hér eru settar upp. Þannig verður engin tekjujöfnun í því nema mjög veik.