131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara minna á það að aldraður í stóru húsi hefur kannski ekki miklar tekjur af húsi sínu og ef hann hefur tekjur af því skerðast bætur hans og þá fær hann minna endurgreitt.

Nú man ég ekki einu sinni hvað hv. þingmaður var að segja sem ég ætlaði að svara honum en það ber allt að sama brunni alltaf með þessi mál, almannatryggingarnar og velferðarkerfið hjá honum. Almannatryggingarnar eru öryggisnet sem grípur inn í þegar fólk þarf á því virkilega að halda og reglurnar eru gerðar þannig. Það eru miklir jaðarskattar í kerfinu sem er þannig að enginn græðir á því. Almenningur er ekki að græða á því heldur er verið að koma til móts við þá sem þurfa á því að halda þegar illa árar og þegar það missir heilsuna, þegar maður þarf aðstoð og hefur ekki nema takmarkaðar tekjur.

Af því að við erum að tala hér um aldraða og öryrkja í þessum efnum er það svo sannarlega þannig að menn fá ekki einhverjar formúur úr kerfinu. Ég minni á það að þegar verið er að endurgreiða — aldrei minna en 50% sagði hv. þingmaður — það er það virkilega minna en 50% vegna þess að gjaldskrá tannlækna er mun hærri en endurgreiðslugjaldskráin sem Tryggingastofnun miðar við. Fólk fær minna en 50% þó að það standi 50% í reglugerðinni vegna þess að endurgreiðslan miðar við gjaldskrá Tryggingastofnunar en ekki raunverulega gjaldskrá tannlækna sem er yfirleitt mun hærri en gjaldskrá Tryggingastofnunar.