131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:57]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt 48. gr. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir af sannfæringu sinni og ég er hér aðallega fulltrúi sjálfs mín og þeirra sem kusu mig. Ég er fulltrúi skattgreiðenda, ég er fulltrúi þess fólks sem er að basla við að koma sér upp húsnæði, koma upp börnunum sínum með ærnum kostnaði og borga heljarháa skatta. Ég er fulltrúi þeirra og þess vegna gleðst ég þegar skattar eru lækkaðir, dregið úr áþján þessa fólks og það hefur meira til ráðstöfunar sjálft. Ég er varkár í því að gleðjast yfir auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Það er ekki rétt að ég tali niður til velferðarkerfisins. Ég hef margoft bent á það að velferðarkerfið er óskaplega mikilvægt fyrir atvinnulífið, launþegana og þjóðina í heild. En það þarf að vera skilvirkt og réttlátt og það má ekki skattleggja einhvern sem er með 150 þús. kr. á mánuði, segjum, til að veita einhverjum öðrum sem er með 400 þús. kr. á mánuði bætur. Það er grundvallaratriði. Við megum ekki skattleggja þann sem er með lágar tekjur til þess að einhver annar sem er með hærri tekjur fái bætur — sem sá skattlagði fær ekki. Ef sá sem er með Eflingartaxtann lendir í því tjóni að vera með einhverjar tannskemmdir fær hann ekki þessar bætur því að þær eru takmarkaðar við elli- og örorkulífeyrisþega.