131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:01]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er væntanlega svo vanur því að hlíta flokksaga að hann getur ekki ímyndað sér að einhver hafi sjálfstæðar skoðanir. Ég hef mínar skoðanir. Þær fara yfirleitt saman við skoðanir Sjálfstæðisflokksins, það er satt, en ég hef mína skoðun og ég er fulltrúi sjálfs mín. Þegar hv. þingmaður segir að ég sé ekki fulltrúi skattgreiðenda en samt séum við það öll hlýt ég að vera það líka, eða hvað?

Það var mjög ánægjulegt að heyra það hjá hv. þingmanni að allir hv. þingmenn séu fulltrúar skattgreiðenda. Það er þá orðin mikil breyting á og verður mjög ánægjulegt að upplifa það í heilbrigðis- og trygginganefnd þegar menn skoða útgjöld ríkissjóðs af varkárni sem eru greidd af skattgreiðendum. Það verður mjög gaman að upplifa það að menn passi sig á því að auka ekki útgjöldin meira en nauðsynlegt er til þess að gera velferðarkerfið skilvirkt og réttlátt og gæti sín á því að vera ekki að skattleggja fólk sem er með lágar tekjur og litlar eignir til að borga bætur fyrir annað fólk sem er með miklu hærri tekjur og miklu meiri eignir. Það verður ánægjulegt þegar ég verð kominn með samherja í því að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Ég ætla að vona að það verði almennur stuðningur, enda fullyrti hv. þingmaður og mælti fyrir munn allra þingmanna að við séum öll fulltrúar skattgreiðenda og er nú aldeilis farið að fjölga í hópnum. (ÖJ: Er þetta Kárahnjúkamaðurinn sem talar?)