131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:21]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður þarf að vera nokkuð hraðvirkur til að svara hv. þm. Pétri H. Blöndal að fullu. Í fyrsta lagi um Kárahnjúka. Það eru mikil áhöld um hvort ekki verður bókhaldslegt tap á þeirri framkvæmd. Menn óttast að svo verði, enda sögðu forsvarsmenn Landsvirkjunar að þeir hefðu aldrei ráðist í þá framkvæmd ef þeir væru fyrirtæki á markaði. Það þurfti hins vegar menn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal til að samþykkja þetta nánast með bundið fyrir augun. Þá samþykktu þeir þessar fjárfestingar fyrir hönd íslenskra skattborgara.

Félag skattgreiðenda. Er það ekki bara almennt íslenska þjóðin? Nú vill svo til að gerðar hafa verið skoðanakannanir aftur og ítrekað um afstöðu Íslendinga til velferðarþjónustunnar og hvernig þeir vilji greiða fyrir hana. Þar hefur verið spurt hvort menn vilji greiða fyrir þjónustuna beint eða hvort þeir vilji borga inn í samtryggingarkerfi og fjármagna hana með sköttum. Yfirgnæfandi meiri hluti í slíkum könnunum hefur verið fylgjandi því að fjármagna velferðarþjónustuna með sköttum. Með öðrum orðum að greiða fyrir þjónustuna meðan maður er frískur og hefur atvinnu en ekki þegar maður hefur misst heilsuna og misst hugsanlega atvinnuna einnig. Þetta er afstaða Íslendinga sem betur fer til velferðarþjónustunnar og hún rímar ekki við þau viðhorf sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur boðað.

Varðandi Sjálfstæðisflokkinn og flokksagann þar hef ég ekki gert annað en að fylgjast með atkvæðagreiðslum í þinginu, þar á meðal atkvæðagreiðslum hv. þm. Péturs H. Blöndals.