131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:23]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins um Kárahnjúka þó að það komi þessu máli ekkert við en hv. þingmaður fór inn á það mál. Á Austurlandi var mikil ördeyða og mikið vonleysi ríkjandi áður en þessi virkjun kom. Mér er sagt að það sé allt öðruvísi í dag, allt öðruvísi. Þar er glimrandi góð staða og ég óska Austfirðingum til hamingju og nota tækifærið til þess.

Hv. þingmaður segir að ég hafi samþykkt með bundið fyrir augun. Það er ekki rétt. Ég sat nefnilega í iðnaðarnefnd á þeim tíma og við fengum mjög góða og frábæra útlistun á því, í trúnaði að sjálfsögðu, hvernig arðsemisútreikningar fóru fram. Ég var mjög ánægður með það módel. Það byggði á Monte Carlo-aðferð, tölfræðiaðferð sem er viðurkennd og sýndi nokkuð góðan hagnað. En þeir gáfu sér eina forsendu sem ég var ekki alveg sáttur við. 0,4% lækkun á álverði á hverju einasta ári næstu 30 ár. Ég spurði: Getur það verið að álverð muni lækka svona stöðugt þegar vitað er að verið er að byggja núna álver sem nota rafmagn sem framleitt er með kolum, þar sem á að brenna heilu fjöllin af kolum? Getur verið að það verði látið viðgangast? Auðvitað verður það bannað ef menn trúa á koldíoxíðmengun, þá verður bannað að framleiða rafmagn með kolum til framleiðslu á áli sem þýðir að framboð á áli mun minnka, eftirspurnin mun vaxa og verðið þar með. Ég get ekki séð annað en að verð á áli muni hækka og hækka, þ.e. ef einhver glóra er í þessum koldíoxíðkenningum sem hv. þingmaður og hans flokkur skilst mér sé mjög áfram um. Afleiðingin af því ef kenningin um koldíoxíðmengunina er gild er sú að menn hætta að brenna kol til þess að framleiða rafmagn. Það þýðir að loka þarf einhverjum álverum eða ný verða ekki byggð sem þýðir það að verðið mun hækka því eftirspurnin vex vegna þess að ál er mikilvægt til að lækka einmitt eldsneytisnotkun bíla.