131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:27]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hún er gagnmerk, lögmætiskenning Hjálmars Árnasonar, formanns þingflokks framsóknarmanna, að það sé sem sagt alveg nákvæmlega sama hvernig framsóknarmenn og stjórnarflokkarnir misfara með vald, hversu siðlaust og ófaglega þeir standa að málum, svo lengi sem þeir brjóta ekki bókstaflega lög sé það í lagi. Það er lögmætis- eða siðabótarkenning Hjálmars Árnasonar — og verði honum að góðu.

Það er mikilvægt að menn hafi í huga að þessi síðustu afrek stjórnarflokkanna í málefnum Ríkisútvarpsins eru ekki einangrað fyrirbæri. Það er ágætlega rakið í yfirlitsgrein í einu dagblaðanna um helgina hvernig 14 ára valdaferill Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu og samstarf núverandi stjórnarflokka í níu ár hefur leikið Ríkisútvarpið, hvernig pólitískar mannaráðningar, sérstaklega í yfirmannastöður, hafa verið reglan. Og nú er komið að Framsókn, spunarokkarnir í Framsókn komu snældu sinni inn í útvarpsráð og í þetta skiptið hjálpaði Sjálfstæðisflokkurinn til. Það er nefnilega komið að Framsókn núna. Framsókn taldi sig eiga stöðuna og fréttastofa útvarpsins hefur ekki verið nógu þæg.

Það liggur fyrir að vikapiltar Halldórs Ásgrímssonar hafa skrifað hótunarbréf og sent yfirmönnum í útvarpinu. Það gengur á með hringingum þar sem uppteknir mennirnir, hæstv. ráðherrar, mega vera að því að liggja í yfirmönnum á fjölmiðlum og kvarta undan því eða hótast yfir því að t.d. umfjöllun þeirra um afstöðu ríkisstjórnarinnar og framgöngu í Íraksmálinu hefði alls ekki verið nógu vinsamleg.

Svona er þjóðfélagið sem við búum í. Þetta er hugarfarið sem gegnsýrir framgöngu stjórnarflokkanna, og sérstaklega forkólfa þeirra, Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar. Það er mál að linni, það er ekki í Ríkisútvarpinu sem þarf að moka út, það er í Stjórnarráðinu sem þarf að moka út og setja á sterkar viftur til að losna við framsóknar-sjálfstæðisódauninn sem er að gera ólíft í þeim híbýlum.