131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:31]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er fróðlegt að heyra í þingmönnum á borð við þá hv. þm. Hjálmar Árnason og Sigurð Kára Kristjánsson. Ef maður slær þeim saman er þetta nokkurn veginn svona: Ríkið á útvarpið, við eigum ríkið, lög segja að við getum ráðið því sem við viljum, þess vegna gerum við það — og hvað eruð þið að röfla? Hvaða læti eru þetta? Ef okkur, sem eigum ríkið, sýnist svo að fimm hæfustu fagmennirnir sem sóttu um séu settir út á guð og gaddinn gerum við það — og bara þegið þið. Ef okkur sýnist svo að taka þann af öllum umsækjendunum sem síst er hæfur og gera hann að fréttastjóra vegna þess að okkur sýnist svo þá bara sýnist okkur svo. Þetta er sem sagt kjarni lýðræðisins í augsýn Sigurðar Kára Kristjánssonar og Péturs Blöndals, hv. þingmanna, og þetta er úrskurður hins lögfróða Hjálmars Árnasonar, hv. þingmanns.

Það er fróðlegt að menntamálaráðherra sjálf leggur blessun sína yfir það sem hér hefur gerst, að gengið sé fram hjá fimm hæfum fagmönnum og tekinn sá síst hæfi. Það er auðvitað fróðlegt vegna þess að menntamálaráðherra er tvöfaldur ábyrgðarmaður í þessu máli. Annars vegar vinnur útvarpsstjóri í beinu valdi menntamálaráðherra, er að vísu ekki skipaður af núverandi hæstv. menntamálaráðherra heldur af forverum hennar, og hins vegar leggur Sjálfstæðisflokkurinn til þrjá menn í útvarpsráð og menntamálaráðherra skal skipa formann þess. Formaður útvarpsráðs er þess vegna persónulegur trúnaðarmaður menntamálaráðherra í útvarpsráði. Sá sem nú situr í stóli menntamálaráðherra, hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, losnar ekki undan þeirri ábyrgð. Hún getur ekki skotið sér undan því að eitthvað hafi gengið sér til húðar vegna þess að það sem nú hefur gerst er ákaflega slæmur forboði um þá vinnu sem hér á að fara fram um Ríkisútvarpið sem virðist eiga að ráðherravæða enn þá meira en orðið undir stjórn hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.