131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:15]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir prýðilega framsögu. Ég ætla að spyrja hann nokkurra spurninga.

Ég get tekið undir það að ákveðin rök eru fyrir því að endurskoða reglur um birtingu skattskráa. Það má t.d. velta því upp hvort það ætti að þrengja að því þannig að það þyrfti að óska sérstaklega eftir skattupplýsingunum þannig að einhverjir sem hafa með málið að gera, t.d. félagsmálayfirvöld, sveitarfélög og fleiri, þyrftu að óska sérstaklega eftir upplýsingunum á málefnalegum forsendum öðrum en hreinni forvitni. Það má vissulega velta því upp hvort hægt sé að endurskoða reglurnar þannig að þetta verði geðfelldara í framkvæmd en nú. Ég hef ákveðna samúð með því viðhorfi og er tilbúinn til að ræða það á málefnalegum forsendum hvernig og hvort við eigum að breyta þessum reglum af því að það er vissulega engum til sóma þegar fólk er að velta sér upp úr tekjum náunga síns einungis til að svala forvitni sinni með frekar ógeðfelldum hætti.

Á móti kemur að maður spyr sig spurninga og ég ætla að leggja þær fyrir hv. þingmann. Mun aukin leynd eða algjör leynd yfir skattskránum ekki í fyrsta lagi auka á ójöfnuð þar sem erfiðara yrði að fylgjast með tekjuþróun í samfélaginu og í öðru lagi auka skattsvik þar sem erfiðara yrði að fylgjast með tekjum einstaklinga og fyrirtækja? Hið þriðja er kannski alvarlegasta og stærsta spursmálið. Mundi algjör launaleynd eða skattaleynd ekki auka á launamun kynjanna? Hægt er að fullyrða að ein alvarlegasta meinsemd í samfélaginu núna sé þegar verið er að mismuna kynjum eftir launum þegar um er að ræða tvo jafnhæfa einstaklinga í sömu stöðu. Mundi ekki leyndin auka verulega á launamisrétti kynjanna og hvernig væri hægt að koma í veg fyrir það ef þessar reglur yrðu þrengdar?