131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:26]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við sem stöndum að þessu frumvarpi erum ekki að ganga erinda stóreignafólksins og þeirra tekjuháu. Það kemur fram í skýrri greinargerð með þessu frumvarpi að verið er að standa vörð um friðhelgi einkalífsins. Það er verið að tryggja að ekki séu bornar á torg viðkvæmar persónuupplýsingar sem viðurkennt er í allri löggjöf á öllum sviðum að séu viðkvæmar og hafa verið notaðar í annarlegum tilgangi — það vita menn — ekki bara hér á landi heldur líka annars staðar.

Við höfum nú verið þeirrar skoðunar að þjóðfélagið eigi frekar að vera opið og gegnsætt, hvort sem það er á þessum sviðum eða öðrum. En það má hins vegar ekki gera það á kostnað þeirrar friðhelgi sem lög tryggja einstaklingum og einstaklingsfrelsinu. Það er grundvöllurinn fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram. Við viljum standa vörð um þessi réttindi, standa vörð um það að menn fái að hafa þessi viðkvæmu persónulegu málefni í friði fyrir sig en að þau séu ekki borin á torg fyrir aðra, málefni sem koma öðrum ekki við.

En úr því að hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að hann væri frekar hlynntur því að þjóðfélagið yrði opið og þessar upplýsingar birtar hlýt ég að spyrja hann: Ef hann er hlynntur því að upplýsingar eins og þessar séu lagðar fram, álagning á skattskrám, mundi hann þá ekki vilja ganga alla leið og birta upplýsingar um það hversu háar fjárhæðir einstaklingar fá í gengum styrkjakerfi ríkisins, bótakerfið, í gegnum Fæðingarorlofssjóð o.s.frv.?