131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:41]

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er enn á ferðinni hefðbundin hagsmunagæsla sjálfstæðismanna og forgangsmál ungra sjálfstæðismanna sem virðist brenna mest á þeim í þjóðfélaginu í dag, þ.e. að standa dyggan og öruggan vörð um auðmenn landsins. Nú vilja þeir fela ójöfnuðinn í þjóðfélaginu enn betur. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu því sl. 13 ríkisstjórnarár Sjálfstæðisflokksins hafa verið feit ár auðmanna og mögur ár launamanna. Ójöfnuðurinn hefur vaxið svo hröðum skrefum að hann þolir ekki lengur dagsins ljós. Það er svo einfalt. Það verður að fela hann. Hinn raunverulegi tilgangur frumvarpsins er að fela ójöfnuðinn, fela það að atvinnuleysisbætur eru undir fátæktarmörkum og sumir auðmenn landsins hafa tuttugufaldar atvinnuleysisbætur á mánuði, fela það að láglaunafólk, sérstaklega konur í ummönnunarstörfum hafa upp til hópa tuttugufalt lægri tekjur en auðmennirnir. Fela það að það er gríðarlegur munur á heildartekjum karla og kvenna og það sem verst er kannski, eins og minnst hefur verið á, fela hinn kynbundna launamun. Leyndin þar er gróðrarstía kynbundins launamunar og kynbundinn launamunur er stjórnarskrárbrot.

Auðvitað þarf að fela það að hinir nýríku auðmenn landsins þéna milljónir á mánuði í tekjur. Auk þess þarf að fela það, sem er reyndar gert, að þeir borga ekki nema 10% af fjármagnstekjunum. Okkur er mismunað. Staðan hefur orðið þannig síðastliðin ár með uppkaupum fyrirtækja og einokun í öllum rekstri að auður hefur safnast með óheyrilegum hætti á fáa menn. Nú hafa hinir sömu auðmenn tæmt möguleika sína hér á landi og horfa til annarra landa. Við heyrðum síðast fréttir um uppkaup í Danmörku þar sem bankastofnun fer í kjölfarið og kannar eignastöðu fyrirtækja innan frá og fer svo í að kaupa. Nákvæmlega eins og var gert hér með óeðlilegum viðskiptaháttum. Svo er þetta kallað útrás, því fallega nafni útrás, þegar farið er með ránsfenginn til útlanda. Maður spyr sig: Af hverju fjárfesta auðmennirnir ekki í íslensku atvinnulífi? Þegar þeir eru búnir að safna sér nægilegum auði hér flytja þeir meira að segja úr landi og búa ekki hér, eru ekki með lögheimili hér. Við náum því ekki einu sinni 22% tekjuskatti af þeim, verði hugmyndir hv. þm. Péturs H. Blöndals að veruleika.

Hér í eina tíð voru menn stoltir af því að hafa háar tekjur, voru stoltir af því að hafa komist til álna. Það virðist vera búið, sá tími er liðinn ef undanskildir eru nokkrir auðmenn. Ef til vill voru þeir stoltir vegna þess að það fé var vel fengið.

Það er einkennilegt í þessu samhengi þegar maður les þessa tillögu að nú nýlega birti bandaríska tímaritið Forbes upplýsingar um milljarðamæringa þar sem einn Íslendingur komst á lista. Það er einkennilegt að Bandaríkjamenn sem telja sig varðveita fjöregg lýðræðisins, hvorki meira né minna, skuli ekki sjá ástæðu til að banna slíkar birtingar, ég velti því fyrir mér.

Ég bendi líka á, af því að hv. framsögumaður hefur gert það mjög að umtalsefni að hér sé um að ræða lögbrot, brot á lögum, hvort ekki sé frekar nær að fara með málið fyrir dómstóla en að vera að hreyfa því á Alþingi með frumvarpsgerð. Svona hefur þetta verið hér um áratugi og það hefur aldrei nokkur maður leitað til dómstóla út af þessu og það er almenn fullvissa í þjóðfélaginu um að þetta standist lög, ella hefði fyrir löngu verið búið að koma í veg fyrir birtingu skattskrár.

Ég vil líka minna á í þessu samhengi að eitt stærsta skattsvikamál sem er til meðferðar nú í þjóðfélaginu á rætur sínar að rekja til upplýsinga sem komu eftir birtingu skattskrár. Það er af því að skattrannsóknarstjóri og skattyfirvöld eru ekki alsjáandi, betur sjá augu en auga í þessum efnum.

Það er ýmis ójöfnuður sem brennur á almenningi hér í landi, ójöfnuður sem hefur vaxið hröðum skrefum eins og ég hef nefnt. Þetta frumvarp er ekki til þess fallið að bæta lífskjör eða koma í veg fyrir ójöfnuð. Þvert á móti, frumvarpinu er ætlað að fela ójöfnuðinn og það eru auðmenn landsins sem hafa áhyggjur af skattskrám en ekki almenningur, ekki venjulegt fólk, millitekjufólk eða lágtekjufólk, það hefur engar áhyggjur af þessum málum.

Ég spyr að lokum: Eigum við ekki frekar að einhenda okkur í það, og þá sérstaklega hinir yngri og upprennandi þingmenn, að vinna gegn stjórnarskrárbrotum sem viðgangast hér á hverjum degi og hverri klukkustund gegn konum? Þá á ég aftur við hinn kynbundna launamun. Er það ekki forgangsverkefni okkar? Það er almennt viðurkennt í þjóðfélaginu að þar sé um stjórnarskrárbrot að ræða. Vilja ekki hv. flutningsmenn frumvarpsins taka höndum saman við mig, flokk minn og aðra sem sinna þessu málefni í Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum og vinna gegn þeim stjórnarskrárbrotum? Ég skora á þá hv. þingmenn að taka það upp sem forgangsmál því þetta er óþolandi. Það vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hún leggst gegn þessu frumvarpi.