131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:52]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst ekki á að birting upplýsinga í skattskrá breyti neinu um kynbundinn launamun. Það er líka búið að birta þær svo lengi að hann ætti fyrir löngu að vera horfinn ef það hefði einhver áhrif.

Síðan vil ég nefna að stærstu mál sem hafa uppgötvast, af því að hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að 10% fjármagnstekjuskattur væri afskaplega lágur skattur, eru þau að menn flýja þennan lága skatt. Það er svo merkilegt. Hann virðist vera of hár ef eitthvað er. Nú er ég ekki þar með að segja að menn eigi að flýja skatta, að sjálfsögðu ekki, menn eiga að borga sína skatta og engar refjar með það og ekki að svíkja undan.

Svo gat hv. þingmaður þess að menn ynnu hlið við hlið, karlar og konur, með mismunandi laun, 18% launamun. Hvernig stendur á því að atvinnurekandi borgar karlmönnunum hærri laun? Vill hann ekki græða? Af hverju ræður hann ekki fleiri konur og borgar þeim lægri laun? Það skyldi þó ekki einmitt vera skorturinn á því að menn vilji græða sem geri það að verkum að launamunurinn er eins og hann er? Það virðist nú helst vera hjá opinberu fyrirtækjunum þar sem ætti að vera hvað mestur launajöfnuðurinn sem launamunurinn er ekki hvað sístur. Það er einmitt að gerast núna í atvinnulífinu þegar menn fara að gera kröfur um arðsemi að menn eru farnir að ráða fólk eftir hæfileikum, mjög hæfileikaríkt fólk og jafnvel mjög ungt fólk og jafnvel konur, sem betur fer.