131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:54]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað um frumvarpið. Hún hefur reyndar verið dálítið sérstök að mínu mati. Hún hefur ekki nema að litlu leyti snúist um þau prinsipp sem frumvarpið er um, þ.e. friðhelgi einkalífsins og það að menn fái að hafa sín viðkvæmustu málefni í friði fyrir sig en að þau séu ekki borin á torg, heldur hefur umræðan kannski frekar snúist um hinn meinta ójöfnuð í þjóðfélaginu, kynbundinn launamun og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ég bjóst við ýmsu áður en ég fór í umræðuna og mælti fyrir frumvarpinu en ekki þessu atriði.

Mig langar til að víkja að örfáum atriðum sem fram hafa komið í umræðunni og skipta líka miklu fyrir það mál sem er til umfjöllunar. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu gerir það ráð fyrir að ekki verði dregið að neinu marki úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er leyft og veitt í núgildandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti eða til að bregðast við undanskotum frá skatti og til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um til að uppræta slíkt framferði. Flutningsmenn frumvarpsins eru á móti skattsvikum, flutningsmenn þess vilja að menn fari eftir þeim lögum sem í gildi eru varðandi skattskyldu og skattgreiðslur, það er alveg klárt.

Flutningsmenn frumvarpsins eru hins vegar á þeirri skoðun að slíkt eftirlit eigi að vera í höndum skattyfirvalda en ekki annarra. Við flutningsmenn erum þeirrar skoðunar að leggja beri af einkaskattrannsóknir borgaranna hvers á öðrum. Við teljum að slíkt rannsóknarhlutverk eigi að vera í höndum skattyfirvalda, skatteftirlitsins en ekki annarra. Við teljum að núverandi kerfi sé þannig að það brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna, það brjóti gegn friðhelgi einkalífs borgaranna.

Mér þykir mjög furðulegt að hv. þm. Atli Gíslason, sem talar um að stjórnarskráin sé brotin á hverjum degi, að farið sé á svig við jafnræðisregluna á hverjum einasta degi og málflutningur hans miðar fyrst og fremst að því að vernda þurfi stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga, skuli ekki taka undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu. Þau miða öll að því að vernda rétt einstaklinganna til að fá að vera í friði, til að fá að vera í friði frá ríkisvaldinu og ýmsum aðilum í þjóðfélaginu sem hafa eftirlit með einstaklingum sem ekkert hafa brotið af sér.

Einnig vekur furðu að þeir hv. þingmenn sem mæla gegn frumvarpinu eru ekki samkvæmir sjálfum sér. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er nánast í öllum lögum, þar sem fjárhagsleg málefni einstaklinga koma til umfjöllunar að einhverju leyti, kveðið á um þagnarskyldu þeirra sem með slíkar upplýsingar fara. Það er gert í lögum um tekju- og eignarskatt. Eins og ég fór yfir mega skattstjórar og umboðsmenn þeirra, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri eða yfirskattanefnd, ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum segja til um neitt sem þeir verða áskynja í störfum sínum. Hægt er að kæra menn fyrir brot í opinberu starfi samkvæmt almennum hegningarlögum ef þeir brjóta gegn þessum fyrirmælum.

Í sömu lögum er kveðið á um að þessir tilteknu aðilar eigi að leggja fram skattskrár, um skattgreiðslur allra einstaklinga á Íslandi. Ég fór yfir þær reglur sem gilda samkvæmt lögreglulögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um endurskoðendur og, sem hv. þm. Atli Gíslason þekkir, einnig í lögum um lögmenn. Þar eru reistar skorður við því að lögmenn geti upplýst um persónuleg málefni einstaklinga, þar á meðal um fjárhagsleg málefni. Af hverju skyldi það vera? Það er af því að við höfum komið okkur saman um að fjárhagsleg málefni einstaklinga séu viðkvæmar persónuupplýsingar sem eigi að fara leynt. Ef menn væru samkvæmir sjálfum sér mundu þeir tala gegn þeirri leynd sem öll önnur lög kveða á um varðandi mál eins og þessi.

Við flutningsmenn frumvarpsins erum þeirrar skoðunar að skatteftirlitið eigi eftir sem áður að vera hið sama. Ef það væri til að veita þessu máli einhvern forgang væri ég tilbúinn til að tala fyrir því að skattyfirvöld fengju í hendur aukið fjármagn, mannskap eða úrræði til að sinna skatteftirliti. En það væri gegn því að einkaskattrannsóknum hvers borgara gagnvart öðrum mundi ljúka.

Hv. þm. Atli Gíslason nefndi í ræðu sinni að með frumvarpinu ætluðu flutningsmenn þess að fela ójöfnuðinn í þjóðfélaginu. Ég skildi ekki hv. þingmann betur en svo að ég og aðrir flutningsmenn værum fylgjandi kynbundnum launamun eða ýttum undir hann. Ef það er ekki misskilningur þá lýsi ég því aftur yfir, sem ég gerði í fyrri ræðu minni, að ég er á móti kynbundnum launamun. Ég er á móti launamun sem byggist á ómálefnalegum forsendum eins og því hvers kyns launamenn eru eða hvernig þeir eru á litinn. Það skiptir mig engu máli.

Þegar við sem aðhyllumst sömu stjórnmálaskoðun förum í bakarí, hv. þingmaður, þá spyrjum við hvort brauðið sé gott og hvað það kosti en ekki hvernig bakarinn er á litinn eða hvers kyns hann er. Þetta er bara grundvöllur þeirrar frjálshyggju sem við boðum. Við teljum að kynbundinn launamunur sé jafnmikið mein og hv. þingmaður telur. Þetta frumvarp er hins vegar ekki til þess fallið að ýta undir kynbundinn launamun.

Ég bendi hv. þingmanni á að í 2. mgr. 98. gr. núgildandi laga, sem lagt er til að verði breytt, er gert ráð fyrir að skattskrár, sem hér um ræðir, séu lagðar fram til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi. Ef röksemdir hv. þingmanns ganga upp mætti ætla að allar kjararannsóknir færu fram á þeim tveimur vikum. Auðvitað er það ekki svo. Ég veit ekki betur en að kjararannsóknarnefnd starfi allt árið, á grundvelli upplýsinga sem hún hefur hvaðan sem þær koma. Auðvitað mun kjararannsóknarnefnd gera það áfram. Starf kjararannsóknarnefndar byggir ekki einungis á upplýsingum sem birtar eru í þjóðfélaginu á tveimur vikum — tveimur vikum af 52. Auðvitað er það ekki svo. Þessi málflutningur er algjör fyrirsláttur. Kjararannsóknir og rannsóknir á launamun kynjanna munu eftir sem áður geta átt sér stað, þrátt fyrir að menn hætti að leggja þar fram skattgreiðslur allra einstaklinga á landinu í tvær vikur á ári.

Ég get sagt það við hv. þingmann að ég er tilbúinn að taka þátt í því með honum að reyna að útrýma kynbundnum launamun. Ég er ekki viss um að við viljum fara sömu leiðirnar í því sambandi en ég tel að markmið okkar beggja sé hið sama.

Frú forseti. Að lokum ítreka ég þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það mál sem hér er fjallað um skiptir einstaklinga miklu máli. Það er náttúrlega gamalkunnugt trikk að reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að sá sem hér stendur og flutningsmenn frumvarpsins gæti einungis hagsmuna auðvaldsins í þjóðfélaginu. Það er auðvitað ekki svo. Þetta snýst um að menn fái að hafa einkamálefni sín, sem eru viðkvæm, í friði fyrir öðrum, líka einkareknum skattrannsóknum samborgaranna. Þær eru ógeðfelldar og eru okkur flutningsmönnunum ekki að skapi. Þær eru óeðlilegar og ekki í samræmi við þau meginprinsipp sem önnur ákvæði um sambærileg málefni byggja á.