131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Atvinnuleysistryggingar.

174. mál
[17:47]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Helga Hjörvar og Katrínu Júlíusdóttur.

Með frumvarpinu er ætlunin að stíga það skref að lögfest verði ákvæði um sérstaka desemberuppbót til þeirra einstaklinga sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Markmið frumvarpsins er að bæta að þessu leyti stöðu þeirra einstaklinga sem heyra undir lög um atvinnuleysistryggingar.

Þeir sem eru á vinnumarkaðnum, auk elli- og örorkulífeyrisþega, eiga rétt á sérstakri desemberuppbót og reyndar einnig orlofsuppbót. Elli- og örorkulífeyrisþegar eiga jafnan rétt á 30% uppbót í desember á fjárhæðir tekjutryggingar og tekjutryggingarauka skv. 17. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og á fjárhæð heimilisuppbótar einnig. Hið sama gildir um þá sem starfa á almennum vinnumarkaði en þeir eiga almennt rétt á uppbót á laun sín í desembermánuði.

Verði frumvarpið að lögum munu þeir sem eiga bótarétt samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og fá greiddar bætur í desembermánuði eiga rétt á greiðslu sem svarar til 30% af þeirri fjárhæð sem þeir eiga rétt á samkvæmt ákvæðum laganna. Gera má ráð fyrir að kostnaður við þessa breytingu verði tæpar 150 millj. kr. og fer það auðvitað eftir fjölda atvinnulausra á atvinnuleysisskrá í desember hverju sinni. En sú fjárhæð, 150 millj., miðast við fjölda atvinnulausra og greiddar atvinnuleysisbætur í desembermánuði árið 2003.

Virðulegi forseti. Það að greiða atvinnulausum sérstaka desemberuppbót þarfnast ekki mikilla skýringa eða rökstuðnings. Allir vita að atvinnulausir er sá hópur sem hefur minnst úr að spila sér til framfærslu og maður skilur reyndar ekki rökin fyrir því að þetta sé eini hópurinn sem skilinn er eftir í þjóðfélaginu og ekki fær sérstaka uppbót greidda.

Við þekkjum það sem höfum fylgst með þessum málum að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekki verið farið sérlega vel með atvinnulausa. Það skipti auðvitað sköpum um framfærslu og kjör atvinnulausra árið 1996 þegar kippt var úr sambandi af þeirri ríkisstjórn sem þá sat, sem er sú sama og situr nú, því viðmiði sem atvinnuleysisbætur voru greiddar eftir sem var sérstakur taxti í fiskvinnslu ef ég man rétt.

Við fórum yfir það rétt fyrir síðustu kosningar og ég spurði hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra að því hvað atvinnuleysisbætur hefðu orðið háar á árinu 2002 ef þær hefðu fylgt því viðmiði sem þær höfðu á árinu 1996. Þá kom í ljós sem svar við þeirri fyrirspurn minni að atvinnuleysisbætur hefðu þá, á árinu 2002, verið 15 þús. kr. hærri á mánuði en þær voru ef ekki hefði verið klippt á þau tengsl sem atvinnuleysisbæturnar tóku mið af. Þarna voru því atvinnuleysisbæturnar skertar verulega eða um 180 þús. kr. á ári. Það var svo ekki fyrr en fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar að atvinnuleysisbætur voru hækkaðar ekki alls fyrir löngu, kannski fyrir einu til einu og hálfu ári. Núverandi ríkisstjórn var því knúin til þess að bæta aðeins kjör tekjulægstu hópanna í þjóðfélaginu, sem eru atvinnulausir.

Gerð hefur verið tilraun til þess að fá núverandi ríkisstjórn til þess að greiða atvinnulausum desemberuppbót eins og öllum öðrum. Það var gert við síðustu fjárlagaafgreiðslu en því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga. Samt erum við ekki að tala um háa fjárhæð, einungis um 150 millj. kr.

Það er ástæða til þess í tengslum við málið að vekja athygli á því að fram kom nýlega í Morgunblaðinu að rúmlega 3 þús. heimili í borginni fá fjárhagsaðstoð. Einnig kom fram að stærsti einstaki hópurinn sem fær fjárhagsaðstoð frá Félagsþjónustunni í Reykjavíkurborg eru atvinnulausir, eða 42%. Þeim hefur fjölgað hlutfallslega sem eru atvinnulausir og fá atvinnuleysisbætur frá árinu 2001, en þá voru þeir um 36%, en eru orðnir 42%. Við erum því að tala um töluvert stóran hóp.

Þetta sem ég var að vitna í kom fram í erindi Sigríðar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík, og sagðist Sigríður hafa miklar áhyggjur af hinum atvinnulausu í hópi þeirra einstaklinga sem fengu fjárhagsaðstoð þó þeim hefði fækkað tölulega frá árinu 2003. Ekki síst hafði hún áhyggjur af vaxandi fjölda kvenna í hópi öryrkja sem fengu fjárhagsaðstoð.

Allt þetta kemur heim og saman við það sem við höfum séð hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar og ekki síst atvinnulausra, að þeir hafa þurft að leita í verulegum mæli á umliðnum árum eftir fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg og hefur framlagið sem fer til fjárhagsaðstoðar aukist gífurlega mikið á umliðnum árum.

Það er líka athyglisvert þegar við skoðum stöðu atvinnulausra að í skýrslu forsætisráðherra um fátækt, sem lögð var fram fyrir sennilega réttu ári, kom fram að tekjur þeirra sem eru í lægstu tekjuhópunum, og í þeim hópi eru atvinnulausir, hafa hækkað hlutfallslega mun minna en hjá þeim efnameiri. Tekjur þeirra lægstlaunuðu hækkuðu á tímabilinu 1995–2002, þ.e. það tímabil sem núverandi ríkisstjórn hefur setið, um 17%, á meðan hækkunin var 45% meðal hinna tekjuhæstu. Það staðfestir það sem við höfum verið að halda fram að bilið milli ríkra og fátækra fer vaxandi í þjóðfélaginu.

Við höfum farið í gegnum það og því skal haldið til haga við umræðuna þegar verið er að kalla eftir því réttlætismáli að atvinnulausir fái desemberuppbót líkt og aðrir í þjóðfélaginu, að atvinnulausir þurfa einnig að greiða skatta af þeirri litlu fjárhæð sem þeir fá í atvinnuleysisbætur. Ég hef kallað eftir því, t.d. við hæstv. félagsmálaráðherra, hvort hann telji ekki eðlilegt að þeir sem fái fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum, vegna þess að þeir eru svo illa settir að þeir eigi ekki fyrir framfærslu frá degi til dags, að þeir þurfi ekki að greiða skatta af fjárhagsaðstoð. Hæstv. ráðherra taldi enga ástæðu til að hafa eitthvert skattfrelsi varðandi fjárhagsaðstoðina. Samt þurfa þeir sem fá fjárhagsaðstoð oft og iðulega að fá fjárhagsaðstoð til þess að geta greitt skattana til hæstv. fjármálaráðherra.

Fjárhagsaðstoðin hefur verið að þyngjast verulega hjá sveitarfélögunum m.a. vegna þess að það hefur verið kippt úr sambandi því viðmiði sem ég nefndi sem atvinnuleysisbæturnar höfðu við laun og sömuleiðis að því er varðar grunnlífeyri og tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega. Það hefur orðið til þess að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur vaxið mjög.

Af því ég nefndi skattgreiðslur lágtekjuhópanna er það svo að í dag greiðir fólk með 110 þús. kr. í mánaðartekjur tæplega 14% skatt, en greiddi 2–3% af samsvarandi tekjum árið 1995. Skattgreiðslur þess hafa því aukist verulega.

Ég vil nefna í þessu sambandi, af því ég er að tala um tekjulægsta fólkið í þjóðfélaginu, að ég hef látið skoða það fyrir mig hvað ríkið hafi sparað sér mikið á því frá árinu 1995 þangað til í desember 2004 með því að klippa á tengsl lífeyris og launa eins og gert var á árinu 1996, að ef grunnlífeyrir og tekjutrygging væri hlutfallslega sú sama eins og hún var á árinu 1995 og ekki hefði verið farið í hinar miklu skerðingar sem ríkisstjórnin hefur farið í hefðu elli- og örorkulífeyrisþegar fengið tæplega 4,6 milljarða meira í sinn hlut á tímabilinu frá árinu 1995–2004. Ríkisvaldið hefur með öðrum orðum haft af elli- og örorkulífeyrisþegum tæpa 4,6 milljarða með skerðingu á grunnlífeyri og tekjutryggingu á þessu tímabili miðað við að hafa ekki klippt á þau tengsl sem voru og þær viðmiðanir sem grunnlífeyrir og tekjutrygging tók mið af.

Ég vil einnig benda á að tölur hafa komið fram sem sýna, t.d. hjá ASÍ sem hefur skoðað mjög kjör þeirra lægstlaunuðu í þjóðfélaginu, að hlutfall fátækra skattframteljenda hefur hækkað verulega frá 1995–2001 þegar það viðmið var skoðað, eða úr 8,8% í 13,2%. Þá erum við að tala um 18–20 þús. manns. Sá hópur er reyndar stærri sem er með tekjur verulega innan þeirrar lágmarksframfærslu sem félagsmálaráðuneytið hefur skilgreint sem lágmarksframfærslu fólks, sem ætti að vera um 140 þús. á mánuði, og vantar t.d. um 35 þús. kr. upp á að þeir sem eru með lægstu samsettu bætur almannatrygginga, sem nú eru um 105 þús. kr. ef ég man rétt, hafi sér til framfærslu það lágmarksframfærsluviðmið sem félagsmálaráðuneytið hefur sett fram sem leiðbeiningu um lágmarksframfærslu.

Ástæða er til að halda þessu til haga, virðulegi forseti, þegar við ræðum þetta mál, frumvarp um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, til að tryggja örlítið betur stöðu atvinnulausra í þjóðfélaginu í desembermánuði þegar framfærslubyrði heimilanna er þyngst.

Ég vil einnig minna á að við höfum rætt á þessu þingi að langtímaatvinnuleysi er orðið ískyggilega mikið og nokkrir hópar virðast vera að festast í langtímaatvinnuleysi. Atvinnuleysi hefur líka vaxið mjög hjá ungu fólki og fram hefur komið að helmingur allra atvinnulausra sé undir 35 ára aldri. Það sem við sjáum líka þegar við skoðum stöðu atvinnulausra er að af þriðjungi þeirra sem eru atvinnulausir eru langtímaatvinnulausir og það fólk hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur. Þegar við skoðum þróunina á langtímaatvinnuleysi er athyglisvert að hlutfall langtímaatvinnulausra hefur hækkað úr 19% af öllum atvinnulausum árið 2002 í 26,4% árið 2003 og þegar ég skoðaði ágúst 2004 hafði hlutfall langtímaatvinnulausra aukist úr 19% árið 2002 í hvorki meira né minna en 34% í ágúst sl. Við erum því að tala um að stór hópur þeirra 5–6 þúsund einstaklinga sem er atvinnulaus, að um þriðjungur þeirra er atvinnulaus og hefur verið langtímaatvinnulaus í sex mánuði eða lengur.

Það segir sig sjálft að fólk, ekki síst fjölskyldufólk, þegar fyrirvinnan er kannski atvinnulaus, getur ekki framfleytt sér, hvað þá börnum sínum, miðað við það að hafa einungis 85 eða 90 þús. kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði, hvað þá heldur í langan tíma eins og sex mánuði. Þar að auki, virðulegi forseti, er nú verið að taka af þessum nánasarskap í ríkiskassann til fjármálaráðherra. Það er ekki hægt einu sinni að láta þennan hóp, virðulegi forseti, í friði, þ.e. að það þurfi ekki að greiða í okkar sameiginlega sjóð, fólk sem hálfsveltur og á ekki fyrir framfærslu sinni. Enda er það svo og við höfum farið í gegnum það, virðulegi forseti, að fólk sem er með innan við 100 þús. kr. sér til framfærslu er stór hópur, mig minnir að það sé tæplega 30 þúsund manns og sem greiðir til samfélagsins um 2 milljarða eins og dæmið leit út á síðasta ári.

Ég vil líka minna á og það er sjálfsagt að halda því til haga að atvinnuleysi hjá konum hefur verið gífurlega mikið á undanförnum mánuðum. Í janúar 2005 var atvinnuleysi alls 3,1% og þar af t.d. á höfuðborgarsvæðinu voru konur 3,5% og karlar 2,7% og þegar landið í heild er skoðað allt saman eru atvinnulausar konur á landinu öllu 3,7% en karlar 2,5%. Við sjáum því að þetta bitnar að verulegu leyti á konum og ungu fólki.

Virðulegi forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að ræða þetta mál neitt frekar. Satt að segja geri ég mér ekki miklar vonir um að hæstv. ríkisstjórn snúist hugur og vilji fara að skoða af sanngirni stöðu fátæks fólks og þar með talið atvinnulausra hér á landi. Kallað var eftir aðgerðum fyrir þessa hópa við síðustu kosningar árið 2003. Þar mættu forustumenn allra flokka til að ræða t.d. velferðarskýrslu ASÍ sem vildi taka sérstaklega á og koma á bráðaaðgerðum til að bæta stöðu atvinnulausra og fátæks fólks í þjóðfélaginu. Ekki vantaði að bunan stæði út úr forustumönnum stjórnarflokkanna um að það þyrfti nú að bæta stöðu þessara hópa en lítið hefur verið gert í því máli eins og við þekkjum.

Engu að síður er enn einu sinni gerð tilraun til þess að fá ríkisstjórnina inn á þá braut að gera eitthvað í málefnum þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Það er auðvitað til skammar og við höfum ekki enn rætt þá skýrslu sem ríkisstjórnin lagði fram fyrir um ári, rétt áður en þingið lauk störfum þannig að ekki gafst tími til að ræða skýrslu forsætisráðherra um stöðu fátækra sem ég nefndi áðan í máli mínu. Þar kom fram að stjórnarflokkarnir skiluðu auðu í því efni. Þeir höfðu engar tillögur fram að færa til að bæta stöðu atvinnulausra eða fátæks fólks hér á landi. Þeir vísuðu á sveitarfélögin og kölluðu eftir því að sveitarfélögin lækkuðu gjaldtöku í leikskólum, sem er auðvitað hið besta mál og ríkið og sveitarfélög eiga vissulega að taka höndum saman um að gera það, en það þýðir ekki að ýta þessu bara á sveitarfélögin og að ríkisstjórnin sé stikkfrí í þessu máli. Ekki veit ég hvort sú opnun sem fram kom á síðasta landsfundi framsóknarmanna verði til þess að stjórnarflokkarnir komi til móts við sveitarfélögin í þessu efni og stígi skref í átt til þeirra þannig að hægt sé að stíga frekari skref í þá átt að leikskólinn verði gjaldfrjáls en það var eina tillagan sem stjórnarflokkarnir höfðu fram að færa um að bæta stöðu fátækra hér á landi.

Ég vil halda líka til haga að ég ræddi atvinnuleysi við hæstv. félagsmálaráðherra fyrr á þessu þingi, mig minnir að það hafi verið í október- eða nóvembermánuði. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til að nefnd væri að störfum sem væri að fara yfir lögin um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir og tilgangurinn væri að byggja upp skilvirkara og betra stuðningskerfi við atvinnulausa. Við höfum ekkert heyrt af því starfi síðan og hefði verið æskilegt að hæstv. félagsmálaráðherra hefði verið viðstaddur umræðuna og svarað því til hvað hann vildi gera í málefnum þessa hóps og hvort vænta væri niðurstöðu af starfi þeirrar nefndar sem er að vinna að því bæta stuðningskerfi við atvinnulausa.

Ég minnist þess einnig að hæstv. félagsmálaráðherra, á fyrstu mánuðum sínum í stóli félagsmálaráðherra, nefndi það líka að hann vildi skoða það hvort ekki væri ástæða til að tekjutengja bætur atvinnulausra með líkum hætti og er sums staðar í nágrannalöndum okkar þannig að atvinnuleysisbætur tækju mið eða væru sem ákveðið hlutfall af tekjum atvinnulausra eins og þeir höfðu tekjurnar þegar þeir voru á vinnumarkaðnum. En það hefur lítið heyrst, virðulegi forseti, frá hæstv. ráðherra um það mál frá því að hann settist í stól ráðherra með þetta loforð á vörunum. En eftir því verður sannarlega gengið.

Hér er á ferðinni lítið mál en stórt fyrir þá sem þess munu njóta ef þingið ber gæfu til að samþykkja það. Ég kalla auðvitað eftir rökum ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hvaða ástæða er til þess og hvaða rökum þeir tefla fram fyrir því að atvinnulausir, þeir verst stöddu í þjóðfélaginu sem eiga ekki fyrir framfærslu nema kannski fyrstu tvær vikur mánaðarins eftir að þeir fá atvinnuleysisbæturnar, séu eini hópurinn í þjóðfélaginu sem ekki fái það sem aðrir fá og þar með talið elli- og örorkulífeyrisþegar, sem er uppbót í desember á atvinnuleysisbætur sem mundi um muna í þeim mánuði sem er hvað erfiðastur fyrir fjölskyldurnar í landinu, ef þeir fengju t.d. 30% uppbót á atvinnuleysisbætur í þeim mánuði. Hér er ekki verið að kalla eftir orlofsuppbót eins og margir hafa gert, einungis að stigið sé þó það skref í átt til atvinnulausra að þeir fái sérstaka uppbót í desembermánuði.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.