131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ákaflega sérkennileg þróun í túlkun og framkvæmd þingskapa ef utandagskrárumræður sem beðið hefur verið um með formlegum hætti komast ekki að en menn breyta hins vegar umræðum um þennan lið, Athugasemdum um störf þingsins, í eins konar utandagskrárumræður sem stinga sér þá fram fyrir í röðinni á því formi að bera upp í þeim spurningar til hæstvirtra ráðherra.

Hv. þm. Jón Bjarnason bað fyrstur um umræðu utan dagskrár um þetta mál, um málefni skipasmíðaiðnaðarins vegna þeirra atburða sem þar hafa verið að gerast. Rísi deila um það hvaða ráðherra eigi að vera til svara á að leysa úr henni. Það er auðvitað eðlilegt, eins og hér hefur verið rækilega rökstutt, að hæstv. iðnaðarráðherra svari fyrir þetta mál, iðnaðar- og byggðamálaráðherra. Hefur ekki hæstv. ráðherra verið að tjá sig í fjölmiðlum? Heyrði ég ekki hæstv. ráðherrann í viðtali sennilega norður á Akureyri lýsa því að hún hefði hug á því að reyna að kanna hvort hægt væri að fá þessum samningi rift og verkefnið flutt til Akureyrar? Var það misheyrn? Þá kom hæstv. ráðherra þetta mál við. Hvaða óskaplega fælni er þetta við ræðustólinn nú hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra?

Síðan, virðulegur forseti, er mjög mikilvægt að menn hafi eitt í huga og þá kemur að forsetum, ekki síður en þingmönnum. Það er ekki í valdi ráðherra að stjórna því hvort og þá hvenær umræður utan dagskrár fara fram. Ráðherrar hafa ekki neitunarvald um það hvort þær fara fram. Þá væri illa komið því að þær yrðu fáar, a.m.k. ef núverandi ríkisstjórn hefði slíkt vald í höndum sínum. Það stendur skýrt í 50. gr. að það sé réttur þingmanna að fá tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Þess vegna er það fullgilt að hv. þm. Jón Bjarnason haldi til streitu kröfu sinni um að á morgun fari fram umræða utan dagskrár um málefni skipasmíðaiðnaðarins. Það má þá verða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra til háðungar og skammar ef hún þorir ekki að vera hér til svara.