131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:44]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé erfitt að halda því fram að ég fælist þennan ræðustól. Ég stíg a.m.k. býsna oft í hann. Það sem ég er að segja er — ég skil það a.m.k. þannig — að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og eflaust fleiri vilja gagnrýna það að þessi skip, Ægir og Týr, fari til viðgerða í Póllandi. Ef það á að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það er ég ekki sá ráðherra sem á að svara fyrir það. Ég óttast ekki að fara í umræðu um framtíð skipasmíðaiðnaðar á Íslandi. Reyndar liggja fyrir tillögur um það hvernig rétt sé að taka á samkeppnisstöðu iðnaðarins gagnvart öðrum þjóðum og það varðar endurgreiðslu aðstöðugjalds. En ég ber ekki ábyrgð á þessari ákvörðun. Ég er tilbúin að fara í umræðu um skipasmíðaiðnaðinn en ég mun þá gagnrýna þessa ákvörðun alveg jafnt og aðrir í þingsalnum. Svo mikið er víst.