131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:48]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að við lendum í því aftur og aftur að missa verk úr landi á sviði skipaiðnaðar og viðhalds sem er augljóslega hagkvæmt að vinna innan lands. Það er náttúrlega enn þá undarlegra þegar um er að ræða skip í eigu ríkisins þar sem auðveldlega ætti að vera hægt að leggja mat á það fyrir ríkið hvað fylgir margfeldisáhrifum varðandi unnin verk hér á landi annars vegar og hins vegar þegar farið er með verkefnin úr landi, fyrir utan þá reynslu sem minnst hefur verið á af því sem oftast nær er kallað aukaverk eða viðbótarsamningar um verkhluta. Þessi reynsla af samningum um skipasmíði erlendis er vel þekkt við hver einustu verk sem unnin hafa verið erlendis og ætti ekki að koma neinum á óvart og allra síst stofnun sem á að sjá um útboð eins og Ríkiskaup.

Ég verð að segja að ég furða mig á því að við skulum vera að missa verkið úr landi miðað við þá reynslu sem áður hefur verið uppi varðandi skip Landhelgisgæslunnar og það er með ólíkindum að við skulum standa frammi fyrir því að málum sé svona fyrir komið.

Ég hygg að ekki sé hugsað vel um þennan iðnað hér á landi. Alla vega er það svo að þegar talað er um þetta við ríkisstjórnina vísar hver málinu frá sér. Þetta er dapurlegt.