131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:52]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þingflokksformenn hittu hæstv. forseta að máli í hádeginu í gær lá fyrir að þrír þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum höfðu óskað eftir utandagskrárumræðu við þrjá ráðherra um þrjú umræðuefni sem öll snertu þó skipasmíðaiðnaðinn. Niðurstaða hæstv. forseta var að gera það sem ævinlega hefur verið gert við slíkar aðstæður, að leggja til að sú umræða færi fram á grundvelli þeirrar umræðubeiðni sem fyrst kom fram.

Nú er hins vegar komin upp ný staða og þegar hún lá fyrir lagði hæstv. forseti það til, sem var auðvitað það skynsamlega í málinu, að þingmenn mundu aðeins hægja á sér og að formenn þingflokka mundu setjast aftur niður með forseta og reyna að komast til botns í málinu. Það veldur miklum vonbrigðum að enginn þeirra þingmanna sem hlut eiga að málum þessara umræðubeiðna skyldi taka afstöðu til beiðni hæstv. forseta.

Ber að skilja það þannig að þeir þingmenn sem hér hafa talað séu með þögn sinni varðandi beiðni hæstv. forseta að hafna henni? Ég hvet mjög til þess að við reynum að komast til botns í málinu með því að setjast niður og fara yfir það eins og þingflokksformenn hafa gert og komast að einhverri niðurstöðu. Þess í stað kusu hv. þingmenn að gera hvað? Að hefja efnislega umræðu um þessi þrjú mál sem fyrir lágu í gær. Mér finnst að þar með sé málið orðið nokkuð vandasamara en það var kl. hálftvö því nú erum við komin af stað í efnislega utandagskrárumræðu de facto um skipasmíðamálin. Þess vegna þurfum við að velta því fyrir okkur hvort við eigum að taka upp það sem mér sýnist vera utandagskrárumræða með tilhlaupi þar sem menn koma fyrst til að skapa sér pínulítið svigrúm og pínulitla vígstöðu og fara í efnislega umræðu og hefja síðan utandagskrárumræðu einhverjum dögum seinna. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að við tökum undir beiðni hæstv. forseta.