131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:54]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór nokkuð vel af stað þegar hann lýsti því sem rétt var að á fundi okkar þingflokksformanna með forseta í gær lágu fyrir þrjár beiðnir um umræðu utan dagskrár um sama mál en hver með sínu heitinu og aðeins ólíkum formerkjum. Niðurstaða forseta var sú að umræðan yrði tekin við hæstv. iðnaðarráðherra og að hv. þm. Jón Bjarnason fengi umræðuna.

Hins vegar lá fyrir í morgun að hæstv. iðnaðarráðherra var ekki tilbúin til að taka umræðuna. Þá stendur eftir að enn eru inni þrjár beiðnir. Ekki hefur verið rætt um hvaða ráðherra tekur að sér að ræða þetta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við þingmenn og það sem við förum fram á, og ég tek undir þá beiðni sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, er að fá úrskurð forseta um með hvaða hætti þetta verði tekið fyrir. Úrskurðað hefur verið að hv. þm. Jón Bjarnason er með umræðuna. Hins vegar á eftir að úrskurða um hvaða ráðherra verður til svara og við verðum að fá úr því skorið.

Hæstv. forseti hafði samband við mig í morgun og tilkynnti mér að hæstv. iðnaðarráðherra gæti ekki og mundi ekki taka umræðuna. Það virði ég og fannst eðlilegt að við fengjum þann úrskurð. Herra forseti sagði rétt áðan að við mundum funda í dag um málið og mér finnst það góð niðurstaða.