131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:15]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég þakka þetta tækifæri til að ræða málefni nefndar um Evrópumál sem forsætisráðherra skipaði 14. júlí sl. Nefndin tók til starfa 28. júlí og hefur haldið níu fundi. Í nefndinni sitja fulltrúar frá öllum þingflokkum. Ég tel að nefndarstarfið hafi gengið ákaflega vel og þau markmið nefndarmanna hafi náðst að þar geti farið fram umræður um málefni sem tengjast Evrópusambandinu og hagsmunum okkar Íslendinga á þann veg að sem gleggstra upplýsinga sé aflað. Gert er ráð fyrir að halda tíu til tólf fundi í nefndinni á þessu ári og hafinn er undirbúningur að ferð hennar til stofnana Evrópusambandsins og EFTA í Brussel.

Nefndin starfar samkvæmt verkefnaáætlun sem hún samþykkti og hún byggist m.a. á skipunarbréfi nefndarinnar. Nefndin hefur nú þegar fjallað um framkvæmd EES-samningsins, Ísland og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvort og þá hvers konar undanþágur væru veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu og hvað aðild mundi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið. Einnig hefur verið fjallað um hverjir séu kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland.

Á fundi nefndarinnar hafa komið fulltrúar og sérfræðingar, m.a. frá utanríkisráðuneytinu og Seðlabankanum, til þess að svara spurningum nefndarmanna. Nefndin hefur ekki tekið ákvörðun um hvort það sé á hennar vegum að semja skýrslur um einstök mál en hún mun að sjálfsögðu gera það ef nauðsyn krefst. Það er markmið nefndarinnar að starfa á þessu kjörtímabili. Enginn tímarammi er settur í skipunarbréfi nefndarinnar en hún hefur mörg málefni enn til úrlausnar og umræðu og mun að sjálfsögðu kynna störf sín þegar þar að kemur með skýrslum eða álitsgerðum.

Ég vil ítreka það að starf nefndarinnar gengur ákaflega vel og ég tel að hún sé mjög heppilegur vettvangur fyrir stjórnmálaflokkana til að ræða þessi mikilvægu málefni.