131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:26]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram hafa fá mál verið jafnmikið rædd hér á landi eins og staða Íslands í Evrópusamstarfinu. Þetta kom í rauninni mjög vel fram þegar Evrópustefnunefndin, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, fór yfir þá vinnu sem unnin hefur verið á þessum vettvangi. Þá kom í ljós að búnar höfðu verið til ótölulegar skýrslur, m.a. af hálfu hins opinbera, um marga þætti sem lutu að þessu máli. Það hefur með öðrum orðum verið reynt mjög markvisst að varpa ljósi á þetta mál og á Alþingi hafa farið fram ótal umræður um það.

Við vitum líka að gerð var alvarleg tilraun til þess að gera Evrópumálin að einu aðalkosningamálinu fyrir síðustu kosningar. Það mistókst vegna þess að kjósendur höfðu einfaldlega ekki áhuga á málinu. Þetta mál er með öðrum orðum í prýðilegum farvegi. Afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er alveg ljós. Við byggjum á þessu samstarfi, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, á vettvangi hin Evrópska efnahagssvæðis sem hefur dugað okkur vel og er í fullu gildi.

Það liggur líka fyrir að núna er fyrir frumkvæði ríkisstjórnarinnar verið að vinna að þessu máli áfram í góðu samstarfi fulltrúa allra stjórnmálaflokka og þar er verið að varpa betra ljósi á málið og þess vegna er það að mínu mati í prýðilegum farvegi.

Því er oft haldið fram að við höfum ekki aðgang að ákvarðanaferlinu innan Evrópusambandsins. Það er einfaldlega rangt. Við sjáum að við höfum margvíslegan aðgang í þeim efnum. Því er líka haldið fram að við séum bundin á klafa Evrópusambandsins vegna þess að við þurfum að taka sjálfvirkt yfir allar gerðir sambandsins. Búið er að sýna fram á að það er líka rangt.

Hægt að sýna fram á að þetta er meira og minna hræðsluáróður. Hér á landi er haldið fram einhvers konar grýluumræðu að nú sé það að bresta á að Noregur fari inn í Evrópusambandið og þá verðum við skilin eftir fyrir utan. Það liggur fyrir að það er rangt. Í Noregi er því haldið fram að nú séu Íslendingar alveg að detta inn í Evrópusambandið og þá þurfi Norðmenn að fara að hugsa sinn gang. Við vitum að svo er ekki. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þessi mál eru í góðum farvegi og það er engin ástæða til neins upphlaups í þessum efnum.