131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, formanni Evrópustefnunefndar, fyrir málefnalegar og greinargóðar upplýsingar um störf nefndarinnar. Hitt verð ég að segja að ósköp finnst mér dapurlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki eiga rismeira erindi í ræðustól á Alþingi til að ræða hugðarefni sín, Evrópumálin, en að fara þar fyrst og fremst með gamlar klisjur og ónotast út í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og fara enn með gömlu plötuna um að við séum algerlega á móti umræðum um þessi mál og viljum hana ekki.

Hvað er ég að gera hér, herra forseti? Er ég ekki að beita mér fyrir umfjöllun um Evrópumál? Er ég ekki að bjóða hæstv. forsætisráðherra upp á tækifæri til að skýra áherslur sínar, tala fyrir hönd ríkisstjórnar og flokks síns? Hvernig notar hæstv. forsætisráðherra ræðu sína? Að uppistöðu til í þessi gömlu ónot en svarar nánast í engu beinum spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það er mjög dapurlegt. Það er ekki aðferðin til þess að glæða þessa umræðu lífi, hafa hana uppbyggilega og málefnalega að nota ræðutíma sinn eins og hæstv. forsætisráðherra gerði áðan.

Varðandi Noreg sagði ég ekki að Evrópumál væru þar ekki á dagskrá eða til umræðu. Auðvitað eru þau það eins og þau eru hér. Ég fylgist mætavel með stjórnmálaumræðu í Noregi gegnum aðild mína að Norðurlandaráði, gegnum sambönd mín við systurflokka okkar í Noregi o.s.frv. Hitt sagði ég og við það stend ég að aðstæður í norskum stjórnmálum eru þannig að það er ekki líklegt að skipta máli hvor blokkin verður ofan á í kosningunum í haust; núverandi ríkisstjórnarblokk eða stjórnarandstaðan. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að á næsta kjörtímabili verður óbreytt ástand, að Evrópumálin eða aðild eða umsókn verði ekki í stefnu þeirrar stjórnar sem þar situr.

Þess vegna finnst mér líka að menn eigi að láta af þeim ósið að reyna að toga umræðuna áfram í löndunum á víxl með því að segja okkur ýkjusögur af því að nú séu Norðmenn alveg að fara inn í Evrópusambandið eða öfugt.