131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[14:35]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. þessa máls tók ég sérstaklega til umræðu hinar fjöldamörgu reglugerðir sem byggja á þeim lagabálkum sem verið er að breyta en þetta eru grundvallarlögin að því er stjórn varðar, umgengni og nytjar fiskveiðilögsögunnar og líka reyndar einnig utan lögsögunnar. Þetta eru lagabálkarnir um umgengni um nytjastofna sjávar, lagabálkurinn um stjórn fiskveiða, lögin um veiðar utan lögsögu og lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, allt lagabálkar sem kveða á um hvernig við högum veiðum, nýtingu fiskstofna, hvernig við friðum svæði, lokum þeim eða opnum eða skömmtum aðgang að veiðum með veiðarfærum, merkingar veiðarfæra, notkun þeirra o.s.frv.

Á þessum fjórum lagabálkum byggja yfir 300 reglugerðir. Útfærslan í reglugerðunum hefur stuðning af lögunum og framkvæmdin eftir því. Þess vegna varpaði ég þeirri spurningu fram í 2. umr. hvort ekki væri ástæða til að fá unna þá vinnu af t.d. Fiskistofu sem hefur mikið með framkvæmdina að gera og Landhelgisgæslan og sjávarútvegsráðuneytið fylgja einnig þessum lagabálkum eftir, og fá það fram alþingismönnum til upplýsingar þar sem við erum að breyta sektarákvæðum til lagfæringar, hvernig mál hafa gengið á grundvelli þessara laga og 314 reglugerða, hvernig þau hafa gengið fyrir sig í kerfinu, hvaða mál hefðu oftast komið upp, hvort um miklar endurtekningar væri að ræða á málstilvikum, hvort verið væri að hengja menn aftur og aftur fyrir að vera með ómerktan belg eða hafa misst flagg af bauju eða eitthvað slíkt sem tilheyrir merkingu veiðarfæra eða hvernig framkvæmdin væri yfirleitt á grundvelli þessara fjögurra lagabálka og fjölmörgu reglugerða sem á þeim byggja.

Þetta er í sjálfu sér mikil vinna og ég skil vel að hún hafi ekki verið hrist fram úr erminni á þeim dögum sem liðnir eru frá því að við ræddum málið við 2. umr. Vegna þess að hv. formaður nefndarinnar tók vel undir að þessi mál yrðu skoðuð vil ég áður en 3. umr. lýkur um málið fá upplýsingar um það hjá hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, hvernig hann hyggist afla þeirra upplýsinga sem ég óskaði eftir og hann tók vel undir að yrði aflað og hvernig hann hyggist koma þeim á framfæri þannig að við þingmenn séum upplýstir um það í reynd hver virkni laganna er á grundvelli allra þessara ákvæða.