131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[14:39]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og fyrirspurnina frá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Við tókum hér umræðu um þessi reglugerðarmál við 2. umr. Það er alveg ljóst að mjög margar reglugerðir eru í gildi, um 311 reglugerðir varðandi þau lög sem við erum að breyta í dag. Ég tel eðlilegt að sjávarútvegsnefnd kalli til sín fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu. Þar förum við í gegnum þessi reglugerðarmál, hvort þurfi að samræma eða breyta og síðan munum við meta framhald málsins í kjölfar þess.

Að öðru leyti vil ég þakka sjávarútvegsnefndarmönnum fyrir góða vinnu og góða samstöðu um að breyta frumvarpinu. Þetta var sérstaklega unnið í góðri sátt við 1. flutningsmann, hv. varaþingmann Örlyg Hnefil Jónsson. Hann er mjög sáttur við þetta og ég líka og við fengum góðar kveðjur að norðan við 2. umr.