131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[14:40]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, fyrir að svara skýrt því sem hér var spurt um og einnig þakka ég hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að spyrja um eða út í þessar reglugerðir því þetta er mikill fjöldi reglugerða sem byggir á þeim fjórum lagabálkum sem verið er að breyta og full ástæða til að fara yfir með hvaða hætti þessar reglugerðir eru settar og hvernig þær eru brúkaðar þannig að allir fulltrúar í sjávarútvegsnefnd og ég tala ekki um þeir sem starfa eiga eftir þessum reglugerðum viti það og skilji.

Eftir sem áður er full þörf á að mínu viti að flýta eins og hægt er afgreiðslu þess frumvarps sem hér liggur fyrir. 1. flutningsmaður þess, Örlygur Hnefill Jónsson, kom með það inn þegar hann kom sem varaþingmaður, byggði það á reynslu sinni sem lögmaður, að full nauðsyn væri til að gera breytingar á þessum lögum og af því leiddi veruleg réttarbót. Ég held að við ættum eins og við getum að flýta afgreiðslu þessa máls þannig að sú réttarbót sem frumvarpið felur í sér komist á sem fyrst.