131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[14:59]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagningu frumvarps til lokafjárlaga fyrir árið 2003 vegna þess að það er á mjög góðum tíma, enekki fyrir frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 þar sem nokkuð langt er um liðið.

Þó er sá kostur við það að fá þetta í einu að menn geta borið fjárlögin saman. Ég rak augun í það að staða í árslok 2002 stemmdi ekki við ,,flutt frá fyrra ári“ í 2003. Eftir smásamanburð og svolítinn lestur sá ég að 1. og 3. gr. eru teknar með í stöðunni 2003 en ekki 2. gr.; niðurfelling fjárheimilda. Það skýrir þennan mun. Í framtíðinni væri skemmtilegra að hafa þetta samanburðarhæft þannig að menn sæju það hvort fyrir sig.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. fjármálaráðherra fyrir lokafjárlögin 2003. Það er mjög ánægjulegt að menn séu komnir með þennan aga á ríkisfjármálum að vera komnir með ríkisfjárlögin strax núna.