131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:03]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum nú saman frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 og 2003. Því miður er ekki hægt að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að það sé rétt að óska hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega til hamingju með að við séum nú að ræða frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á sjálfur í andsvari hefur verið stefnt að því mjög lengi að lokafjárlög næstliðins árs séu lögð fram að hausti. Í raun hefðum við átt að ræða lokafjárlög fyrir árið 2003 í haust samhliða fjárlögum fyrir árið 2005 og fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2004. Þannig er óskastaðan. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra, eins og fram kom, stefnir að því að svo verði næsta haust.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er afar æskilegt að því skikki verði á komið og mér sýnist flest benda til þess að það eigi að vera hægt. Ég held því að sé rétt að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það að nú er sannarlega möguleiki á því að þessi taktur verði tekinn upp í haust. Það eru meiri líkur á því nú heldur en nokkurn tímann áður — það held ég að mér sé óhætt að fullyrða — þrátt fyrir að í nokkur ár, skulum við hafa það, hafi nú gjarnan það verið orðað svo að vonandi verði hægt að gera þetta næsta haust eins og við stefnum enn einu sinni að að verði á hausti komanda.

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að við ræddum hér í vor, nánar tiltekið 15. apríl, lokafjárlagafrumvarp fyrir árið 2002. Þar með var lokið 1. umr. um frumvarpið og það var sent til fjárlaganefndar en kom aldrei þaðan út af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að lengja umræðuna með að fara yfir. Það var sem sagt þá, fimmta árið í röð frá því ný lög um fjárreiður ríkisins tóku gildi, sem verið var að fjalla um lokafjárlög og þau voru þá á svipuðu róli og við erum núna með lokafjárlög fyrir árið 2003. Ég held að rétt sé að taka undir það að nauðsynlegt er að ræða þessi lokafjárlagafrumvörp saman og eins það að lokafjárlög 2002 biðu í raun eftir lokafjárlögum fyrir 2003. Ég vísa til þess sem hæstv. fjármálaráðherra sagði m.a. um þá vinnu sem fram hefur farið og kemur fram m.a. í 3. gr. lokafjárlaga fyrir árið 2003 sem væntanlega þarf ekki að endurtaka.

Við eigum sem sagt von á þessu næsta haust og ég trúi ekki öðru en fjárlaganefnd nái að ljúka störfum varðandi það að fara yfir þessi frumvörp til lokafjárlaga bara fyrir árin 2002 og 2003 fyrir vorið þannig að hægt verði á hausti komanda að fjalla hér um lokafjárlög fyrir árið 2004. Ríkisreikningur hefur verið í nokkuð góðum takti. Honum hefur verið dreift á Alþingi nokkurn veginn á réttum tíma þó ætíð megi deila um hvort hugsanlega megi færa það örlítið framar þannig að meira svigrúm skapist til þess að ganga frá lokafjárlögum því strembið er að ljúka þeim fyrr en reikningurinn liggur fyrir.

Ástæða er til þess, herra forseti, að vekja athygli á orðalagi í 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar.“

Það er það sem við erum að fjalla um núna. Við erum raunverulega að staðfesta ríkisreikninginn þá bæði fyrir árið 2002 og 2003.

Það er hins vegar spurning um þetta orðalag og það er kannski fleira í þessum annars ágætu lögum sem við þyrftum að gefa okkur tíma til þess hugsanlega að endurskoða og velta fyrir okkur vegna þess að mér sýnist ljóst að ríkisreikninginn megi leggja fram fyrr á Alþingi en lokafjárlögin þannig að það þurfi ekki endilega að gerast samhliða, enda hefur það aldrei gerst frá því þessi lög komu til. Það er spurning hvort þetta orðalag megi ekki lagfæra örlítið þannig að menn séu ekki með það svona stíft niður neglt að frumvarp til lokafjárlaga skuli fylgja ríkisreikningnum. Þannig hefur það ekki verið og ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að þannig sé það. Hins vegar er augljóst að við þurfum að staðfesta ríkisreikninginn með því að samþykkja lokafjárlögin.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra þá hefur Ríkisendurskoðun lagt fram skýrslur um endurskoðun ríkisreikninga beggja þessara ára. Það er mikið efni í þeim skýrslum falið eins og í ríkisreikningunum og frumvarpinu til lokafjárlaga. En meginhluti þess alls er að sjálfsögðu þess eðlis að farið verður yfir það nákvæmlega í fjárlaganefnd og hlutir skoðaðir og af eðli máls leiðir að um þau mál er ekki hægt að fjalla hér í miklum smáatriðum vegna þess að hér er auðvitað um sögu að ræða, þ.e. þetta er allt saman liðið og þessu verður ekki breytt. En í þessu efni eins og svo mörgu öðru má oft af sögunni ýmislegt læra.

Hv. þm. Pétur Blöndal rifjaði það upp fyrir okkur að fjárlögin eru að sjálfsögðu áætlun eða spádómur um framtíðina. Það er eðlileg krafa af hans hálfu að frumvarpi til lokafjárlaga fylgi tafla eða yfirlit yfir hvernig til hefur tekist og hvar ákvarðanir hafa verið teknar í ferlinu. Þetta höfum við nú fengið og fáum væntanlega í fjárlaganefndinni þannig að hugsanlegt er að það megi líka fylgja nefndaráliti þegar það kemur til þingsins í 2. umr. Það væri ekkert óeðlilegt við það þannig að hægt væri að fara yfir þetta. En það er einmitt þessi hluti sem er eðlilegt að við horfum til til þess að læra af, til að geta bætt hugsanlega áætlunargerðina. Við höfum nokkuð oft í umræðum um fjárlög hvers árs bent einmitt á að verulega megi taka til varðandi margt í áætlunargerðinni. Þar blasir fyrst við, og við sjáum það þegar við skoðum þessa pappíra, hvort sem það er ríkisreikningurinn eða frumvarpið til lokafjárlaga, að ansi mikið er um margs konar færslur fram og til baka. Það hlýtur að vera eðlilegt að við veltum fyrir okkur því hvort þarna megi ekki vanda betur til þannig að fækka megi eitthvað, mér liggur við að segja og segi hreinlega að það megi fækka blaðsíðunum því það er ekki eins og þetta sé á einstaka liðum heldur er fer fjöldi blaðsíðna í þessum pappírum okkar í þetta.

Ef við horfum til ársins 2003 sjáum við t.d. að frumvarpinu fylgir yfirlit yfir flutning á fjárheimildum á milli ára, þ.e. bæði skuldum og inneignum. Flutningur milli ára er tæplega 36 milljarðar kr. þegar lagt er saman, þ.e. þegar lagt er saman bæði inn og út, þ.e. þegar við erum að tala um bæði það sem flutt er á milli ára vegna þess að menn hafa farið fram yfir eða vegna inneigna sem menn hafa átt.

Hins vegar hefðu auðvitað ýmsar af þessum upplýsingum átt að liggja fyrir og það hefði hugsanlega mátt vera nær raunveruleikanum en þarna er. Um það má alltaf deila en ég held við hljótum að horfa til þeirra liða sem þarna eru stærstir þegar kemur að fjárlögum næsta árs. Þarna eru stærstir liðir t.d. lífeyrisskuldbindingar sem við höfum nú tekið hér nokkrum sinnum umræðu um að eigi að stærstum hluta til að vera fyrirsjáanlegir og það eigi að vera hægt að áætla fyrir þeim eins og flestum öðrum liðum í fjárlögum. Það kemur hins vegar fyrir einstaka sinnum að ekki er allt séð fyrir.

Gleggsta dæmið um þetta eru líklega kjarasamningar grunnskólakennara, en vegna samnings sem gerður var á milli ríkisins og sveitarfélaganna eru raunverulega teknar ákvarðanir um það í kjarasamningum grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga hversu miklar lífeyrisskuldbindingar fylgja þeim pakka á ríkissjóð. Því er erfitt út af fyrir sig fyrir ríkissjóð að sjá það fyrir. En oft og tíðum eru nú þessir samningar gerðir á þeim árstíma að það ætti nú að vera hægt að koma þeim að, eigum við að segja, fyrr en verið hefur.

Afskriftir skattkrafna eru líka árlegur liður og eitthvað af því ætti að vera fyrir séð eða að það mætti taka upp önnur vinnubrögð varðandi skattkröfurnar. Þarna virðast ár eftir ár vera settar inn tölur sem nær allir ef ekki allir vita að eru víðs fjarri raunveruleikanum.

Árið 2003 voru umframgjöld tæplega 13 milljarðar kr. en afgangsheimildir tæplega 23 milljarðar kr. Þegar þetta er saman lagt þá eru þetta um 36 milljarðar kr. Þetta er auðvitað kannski í hnotskurn vandinn sem við sjáum líka þegar við veltum fyrir okkur því hvernig haldið er utan um ríkisfjármálin. Þessar tölur segja okkur að ekki er tekið á fjárhagsvanda fjölmargra stofnana. Þetta er keimlík umræða því sem við höfum verið með hér við fjárlagagerðina, þ.e. vandi þessara stofnana er óleystur ár eftir ár.

Hins vegar viljum við meina að þetta sé ekki í anda fjárreiðulaganna þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því að þessi flutningur tengist flutningi einstakra verkefna milli ára en ekki hallarekstri sem byggist oft og tíðum á röngum grunni. Kannski er meginmálið í þessu að það þarf að skoða stofnanir sem ár eftir ár telja sig sinna lögbundnum verkefnum, telja sig leggja sig fram við að viðhalda sparnaði og sýna það í verki með ýmsum aðgerðum. En þrátt fyrir það eru stofnanir reknar með halla ár eftir ár. Svo kemur að því að þær eru skoðaðar svona ein og ein og þá yfirleitt er þetta leiðrétt. Að bjóða stofnunum upp á slíkar vinnuaðstæður er ekki gott og ekki til fyrirmyndar af þeirri einföldu ástæðu að stofnanirnar eiga að búa við eðlilegt fjárhagslegt umhverfi. Það er ekki hægt að segja að þær geri þegar svona er að verki staðið.

Við viljum meina að andi fjárreiðulaganna segi að á þessum vanda eigi að taka í fjárlögum og það á að upplýsa þar ástæður hallarekstrarins þannig að hægt sé að grípa inn í. Þar verður náttúrlega t.d. að skoða rekstrargrunninn sérstaklega og meta hvort hann sé vanáætlaður.

Við megum heldur ekki gleyma hinni hliðinni, þ.e. uppsöfnuðum fjárheimildum. Það eru nokkur dæmi um að stofnanir hafi skilað afgangi ár eftir ár og þar virðist vera sjálfvirk færsla á milli ára. Hæstv. ráðherra kom reyndar inn á það í ræðu sinni, og ég tek undir það, að það eigi að skoða sjálfstætt hverju sinni. Í þeim tilfellum á það ekki að ganga sjálfvirkt heldur hlýtur að þurfa að grandskoða það. Það má hins vegar ekki vera svo stíft að ekkert megi færa á milli ára því að vitanlega á að verðlauna stofnanir fyrir það þegar þær standa sig vel. Verkefnin líka staðið þannig að eðlilegt sé að færa afganginn á milli ára. Ég ítreka að þetta þarf að skoða vandlega og ég tel ekki ganga, eins og virðist blasa við, að ákveðnar stofnanir séu aðþrengdar á meðan aðrar virðast hafa rúmar fjárheimildir ár eftir ár.

Herra forseti. Hér er ekki hægt að fara í nákvæmar efnislegar umræður vegna þess að eðli málsins er þannig. Þó eru ýmsar athugasemdir úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem rétt er að vekja örlitla athygli á. Ég ætla að stikla á stóru því að tíminn líður hratt og ekki mikið eftir af ræðutíma mínum. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2003 er m.a. á bls. 61 fjallað um fjárhagslega stöðu nokkurra háskólastofnana. Þar koma fram nokkuð sláandi tölur sem hljóta að vekja athygli og verða sérstaklega skoðaðar í fjárlaganefnd, ekki síst þegar við getum tengt þetta saman við ríkisreikning og frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004 við undirbúning fjárlaga, þ.e. í fjárlagavinnunni fyrir næsta ár. En hér segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða nokkurra háskólastofnana var slæm í árslok 2003. Tekjuhalli Háskólans á Akureyri nam 134 millj. kr. á árinu og var eigið fé skólans neikvætt um 127 millj. kr. í árslok. Tekjuhalli af rekstri Tækniháskóla Íslands nam 65 millj. kr. og var eigið fé neikvætt um 127 millj. kr. í árslok. Tekjuhalli af rekstri Raunvísindastofnunar Háskólans nam 21 millj. kr. og var eigið fé neikvætt um 25 millj. kr. í árslok.“

Því miður, herra forseti, held ég að lítil breyting hafi á orðið varðandi flestar eða a.m.k. tvær þessara stofnana. Hins vegar vitum við að Tækniháskóli Íslands hefur nú verið afhentur öðrum aðilum. Við gerum ráð fyrir því að sá hali sem þar hefur myndast verði klipptur af, það hefur komið fram í máli hæstv. menntamálaráðherra. Við munum væntanlega sjá það framkvæmt í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár.

Í sömu skýrslu er einnig rætt um framhaldsskólana og þar segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða margra framhaldsskóla var slæm í árslok 2003. Neikvætt eigið fé Menntaskólans á Akureyri nam 39 millj. kr., Menntaskólans í Kópavogi 133 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Breiðholti 74 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Ármúla 69 millj. kr., Flensborgarskóla 56 millj. kr.“ — Þannig má áfram telja en ég nefni hér aðeins helstu tölurnar. — „Verkmenntaskólans á Akureyri 97 millj. kr. … Menntaskólans að Laugarvatni 34 millj. kr.“

Þetta, herra forseti, nefni ég til að rökstyðja það sem ég nefndi áðan með að því miður virtust ákveðnar stofnanir ár eftir ár búa við sömu þrengingar. Hér nefni ég bæði háskólana og framhaldsskólana og umræðan um þessa skóla er öllum kunn. Hún hefur verið árleg og því miður virðist ekki mikið gerast í því máli, þrátt fyrir að ýmsar nefndir séu settar niður til að skoða grunn þessara stofnana og reyni að finna leiðir til úrbóta.

Frá Ríkisendurskoðun kemur einnig mjög athyglisverð athugasemd varðandi utanríkisráðuneytið, réttara sagt um sendiráðin sem hafa nú hafa öll verið sett undir einn fjárlagalið sem heitir Sendiráð Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við ráðuneytið að framangreind breyting dragi úr gegnsæi upplýsinga og að líklegt sé að ábyrgð forstöðumanna minnki.“

Herra forseti. Þessi athugasemd er býsna merkileg í ljósi þess að yfirlýst stefna stjórnvalda er sú að gegnsæið eigi að vera sem allra mest og ábyrgð forstöðumannanna eigi að aukast. En þarna er þveröfug niðurstaða og eðlilegt að við veltum því fyrir okkur í þeirri vinnu sem fram fer í fjárlaganefnd.

Það vakti sérstaka athygli mína sem fram kemur á bls. 68, þar sem fjallað er um Suðurlandsskóga, nokkuð sem ég hélt að væri löngu liðið. Við þekkjum að það var nokkuð stundað á árum áður, vegna þess að þá voru þrengingar sumra ríkisstofnana með þeim hætti að ein aðferð þeirra til að fjármagna halla sinn eða hluta rekstrarins var yfirdráttur á bankareikningi. Ég hélt, herra forseti, að það væri liðin tíð. Ríkisendurskoðun bendir hins vegar á að því miður hafi þetta gerst hjá Suðurlandsskógum á árinu 2003. Það er nokkuð sem við hljótum að velta fyrir okkur.

Það vakti ekki síður athygli mína sem sagt er á bls. 69 varðandi Hólaskóla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við endurskoðun á ársreikningi Hólaskóla gerði Ríkisendurskoðun fyrirvara í áritun vegna þess að í bókhaldi skólans er færð inneign vegna virðisaukaskatts að fjárhæð liðlega 14 millj. kr. en um er að ræða rangfærslur frá árunum 2002 og fyrr og ítrekar Ríkisendurskoðun að leysa þarf upp reikninginn. Þá hafa ríkisskattstjóri eða skólinn ekkert aðhafst vegna gjaldabreytinga að fjárhæð 13,7 millj. kr. sem Ríkisskattstjóraembættið boðaði á árinu 2001 á uppgjöri skólans á virðisaukaskatti vegna áranna 1998 og 1999. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að niðurstaða fáist í þetta mál sem fyrst. Einnig er ekki ennþá lokið afstemmingu nokkurra af eldri viðskiptastöðum og sjóðstöðu frá fyrri tíma. Unnið er að þessu hjá skólanum.“

Herra forseti. Þarna er um að ræða skuldbindingar frá árunum 1998 og 1999, nú þegar fjallað er um árið 2003 sem við gerum að vísu ekki fyrr en árið 2005. Þetta bendir okkur hins vegar á að það bíður okkar greinilega töluverð vinna í fjárlaganefnd við að fara yfir þau frumvörp sem hér eru til umræðu, frumvörp til lokafjárlaga fyrir árin 2002 og 2003.