131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:23]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það voru athyglisverðar upplýsingar sem fram komu hjá hv. þingmanni um Suðurlandsskóga, sem hafa tekið lán á yfirdrætti.

Nú segir í 40. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr.:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Þetta er sem sagt óheimilt samkvæmt stjórnarskrá, ekki bara lögum. Samkvæmt stjórnarskrá er óheimilt að skuldbinda ríkissjóð með því að taka lán á yfirdrætti eða með öðrum hætti. Ég vildi gjarnan heyra frá hv. þingmanni hvort þetta sé algengt.