131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:46]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég get tekið undir það síðasta sem hv. þingmaður sagði, að þetta sé allt hið skemmtilegasta, en sumt af því er það vissulega. Við lok umræðunnar vil ég hins vegar eingöngu þakka þeim tveimur þingmönnum sem hér hafa talað fyrir alveg ágætar ábendingar um þessi mál. Þetta er nákvæmlega umræða af því tagi sem ég tel að hér eigi að fara fram, gagnrýnin en gagnleg um vinnubrögð og um það hvernig best sé að haga þessum málum framvegis.

Það má auðvitað segja að það ferli sem hófst með breyttri framsetningu og öðru í fjárlögum 1998 sé enn í gangi, þ.e. við erum ekki alveg búin að fóta okkur á öllu því sem þá var ákveðið en menn eru sem óðast að komast til botns í flestum atriðum. Ég vona að fjárlaganefndin muni taka þessi mál núna, þessi tvö frumvörp, til athugunar og afgreiðslu og jafnframt fara vel yfir þær ábendingar sem hv. þingmenn komu hér með. Ég heiti fyrir mitt leyti fullum stuðningi starfsmanna minna og ráðuneytisins við þá yfirferð.