131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:05]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu og í raun ágætu tillögu. Mér heyrist að hún vilji fara frekar varlega í sakirnar en engu að síður sé málið það að fikra sig áfram í sambandi við afnám verðtryggingar.

Ég tek undir margt af því sem hún sagði, mér finnst ástæða til að fara að huga að slíkum breytingum. Eins og kom fram í ræðu hennar var gerð samþykkt á flokksþingi okkar framsóknarmanna nýlega þar sem þetta er gert að markmiði. Í framhaldi af því tók ég ákvörðun um að fara í vinnu í því sambandi sem ekki er ólík því sem hv. þingmaður leggur til í tillögu sinni. Það yrði að sjálfsögðu undir forustu Seðlabankans. Ég hef fram að þessu verið frekar treg, ég skal viðurkenna það, til að stíga þessi skref, sérstaklega vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að raunvextir eru lægri á verðtryggðum lánum en óverðtryggðum. Þannig hefur það verið og hefur oft munað þó nokkru í þeim efnum og þess vegna hef ég verið treg til að stíga þetta skref. Mér finnst þó að svo margt hafi breyst hvað varðar efnahagslegar aðstæður og ástandið á markaðnum að nú sé kominn tími til að fara yfir þetta aftur. Því hef ég ákveðið að setja þarna í gang ákveðna vinnu og mun þingið að sjálfsögðu geta fylgst með henni.

Hv. þingmaður talaði um háa dráttarvexti. Það er rétt, þeir eru háir. Það vill svo til að ég á fund með Seðlabankanum einmitt í þessari viku og þar verður að sjálfsögðu rætt um þetta atriði. Síðan nefnir hv. þingmaður stimpilgjöldin. Þau eru eilíft umræðuefni og er kannski enginn sérstaklega ánægður með það gjald. Engu að síður er það eitt af því sem aflar ríkissjóði þó nokkuð mikilla tekna og er þess vegna ekki alveg einfalt að afnema það í svipinn. Það hefur líka verið rætt milli stjórnarflokkanna að þetta sé ekki æskileg gjaldtaka til framtíðar. Eins og hv. þingmaður veit fer fjármálaráðherra með þau málefni sem varða þessi gjöld.

Ég vildi fyrst og fremst koma hér upp til þess að segja hv. þingmanni að ég hugsa þetta dálítið svipað og hún vill en ég vil fara varlega. Mér heyrist að það sé nú í raun það sem hún vill líka.