131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því sem fram kom í máli hennar að hæstv. ráðherra hefur sett af stað vinnu til að skoða þetta mál, hvort ekki sé rétt og eðlilegt að stíga frekari skref í því að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Ég hefði viljað fá fram hjá hæstv. ráðherra að hún lýsti því nokkuð nánar í hverju sú vinna sem hún hefur sett af stað er fólgin og hverjir það eru sem eru að skoða þetta á hennar vegum. Er það einungis Seðlabankinn sem skoðar þetta mál? Hefur hæstv. ráðherra skipað nefnd til þess að fara yfir málið kannski með líkum hætti og lýst er í tillögunni? Hvaða markmið hefur þeim aðilum verið sett og hvaða verklýsingu hafa þeir fengið sem skoða þetta mál fyrir hæstv. ráðherra? Ég held að það sé afar mikilvægt þegar þrír stjórnmálaflokkar hafa ályktað um málið og tveir nýverið og málið er til skoðunar í þinginu að við fáum nánar fram hjá hæstv. ráðherra hvað hún hefur hugsað sér með þessari vinnu, hvaða markmið menn leggja upp með og hvenær eigi að ljúka þeirri vinnu, vegna þess að tillagan fer nú til efnahags- og viðskiptanefndar og því mikilvægt að við fáum þetta fram.

Ég býst við að það væri verulegur stuðningur fyrir hæstv. ráðherra að fá þessa tillögu samþykkta og hafa þingið á bak við sig í þeirri vinnu sem hún er að fara út í. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort ekki væri fengur í því að þingið samþykkti tillöguna til að það stæði á bak við hana í þeirri vinnu sem er fram undan.

Síðan fagna ég því að hæstv. ráðherra er að láta skoða dráttarvextina og heyri að hún deilir þá áhyggjum með mér að dráttarvextir séu orðnir allt of háir eða um 20%. Ég tel að hún geti haft full tök á málinu þar sem um er að ræða ákvarðanir Seðlabanka byggðar á lagaheimild, og breytt lagaheimildinni í þá veru að við getum séð fram á lækkun á dráttarvöxtum.