131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:31]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að vextir eru almennt séð mjög lágir í heiminum í dag, en þeir eru hins vegar breytilegir. Þeir miðast yfirleitt við Libor eða Reibor eða hvað það nú er, sem eru grunnvextir á hverju markaðssvæði. Þeir vextir geta hækkað. Og þeir hafa hækkað. Þá hækkar að sjálfsögðu skuldabyrði heimilanna líka. Þar kemur því inn í ákveðin verðtrygging, herra forseti.

Að sjálfsögðu hafa vextir hér á landi löngum verið miklu hærri en erlendis, miklu hærri, vegna þess að við erum með mikla eftirspurn eftir lánsfé og hingað til hefur verið takmarkað framboð. Það var fyrst sl. sumar sem við upplifðum það að vextir lækkuðu umtalsvert og ekki er séð fyrir endann á þeirri vaxtalækkun. Auk þess sem þeir sem vilja geta tekið núna gengistryggð lán í evrum eða norskum krónum jafnvel ef þeir kæra sig um, með vöxtum sem eru ekki miklu hærri en það sem hv. þingmaður nefndi. Þá að sjálfsögðu taka þeir gengisáhættu. Það er spurning hvort menn vilja það. Ég mundi ekki ráðleggja neinum manni að gera það nema í litlum mæli, kannski 25% af heildarlánveitingum.

Vextir hafa verið miklu hærri hér á landi vegna þess hvað fjármagnskerfið er einangrað og hvað eftirspurn er mikil og hvað eyðslugleði manna er mikil og sparnaðarvilji er lítill. Það er vonandi að breytast, a.m.k. hefur komið mikið framboð af lánsfé og vextir fara hratt lækkandi.