131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:36]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist af viðbrögðum hv. þm. Péturs Blöndals að ekki vanti mikið upp á að allir flokkar á Alþingi séu orðnir sammála um þá tillögu sem ég mælti fyrir. Ef það hjálpar hv. þingmanni eitthvað að setja inn í fyrirsögnina að skoða kosti og galla afnáms verðtryggingar á fjárskuldbindingum er mér það alveg að meinalausu vegna þess að tillagan felur það í sér. Hún segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga í áföngum. Nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila og atvinnulífs og setji m.a. fram áætlun til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur Seðlabankans um verðbólguspá.“

Ég trúi því að hv. þingmaður vilji nú hafa hönd í bagga með hvernig farið verður í þá endurskoðun sem viðskiptaráðherra boðaði og að leiðsögn komi frá þinginu um hvernig fara eigi í málið frekar en að gefa viðskiptaráðherra alveg sjálfdæmi um hvernig ráðherrann vill fara í það. Ég tala ekki um þegar hún er með Seðlabankann í þessu máli sem hefur verið tregur í taumi að breyta nokkru í þessu efni.

Ég vil líka leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þingmanni að verðtryggð lán hafi ætíð verið hagstæðari, eins og hann nefndi fyrir utan fáein verðbólguskot, frekar en óverðtryggð lán. Ég er hérna með fyrir framan mig árið 2004 og þar kemur fram að fjórum sinnum á því ári voru óverðtryggð lán hagstæðari en þau verðtryggðu, í júní þar sem óverðtryggð lán voru 1,3% hagstæðari, ágúst þar sem þau voru 1% hagstæðari, september 0,6% og síðan í janúar 0,3%. Þetta er því ekki altækt og of mikil fullyrðing hjá hv. þingmanni að svo sé. Það er því full ástæða til að skoða þetta mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að hafa bæði verðtryggingu á lánum og breytilega vexti þannig að bankarnir séu tryggðir í bak og fyrir með belti og axlabönd eins og sagt hefur verið, hvort ekki ætti að nægja að hafa verðtrygginguna en þeir þurfi ekki líka að hafa breytilega vexti.