131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er með tveggja ára tímabil. Í tólf skipti eða í um helming af þeim tíma á þessum tveimur árum hafa óverðtryggðir vextir verið hagstæðari. Þetta er vissulega ekki langt tímabil en það gefur ákveðna vísbendingu um að fullyrðingar hv. þingmanns séu allt of miklar í þessu efni um það að segja að verðtryggð lán séu ávallt hagstæðari að undanskildum ákveðnum verðbólguskotum.

Ég fagna því vissulega að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera bæði breytilegir vextir og verðtrygging. Ég vil nefna að Seðlabankinn sem hefur skoðað þessi mál segir hreinlega í úttekt sem hann gerði á þessu máli fyrir ekki alls löngu, árið 2003, í 2. hefti Peningamála, hann talar einmitt um hvað þetta sé hagstætt fyrir bankana að hafa bæði breytilega vexti og verðtryggingu og segir, með leyfi forseta:

„Vegna uppsegjanleika innlána er sennilega heppilegra fyrir lánastofnanir frá sjónarhóli áhættu og fjárstýringar að hafa breytilega vexti á verðtryggðum útlánum, einkum ef þau eru fjármögnuð með verðtryggðum innlánum.“

Síðan segir í úttekt bankans, með leyfi forseta:

„Ekki er kveðið á um fasta eða breytilega vexti, enda hefur Seðlabankinn ekki beitt þeirri heimild í 1. mgr. 15. gr. laganna að ákveða, að fengnu samþykki ráðherra, að vextir verðtryggðra samninga skuli vera fastir.“

Þeir gætu gert það með vísan í ákvæði núgildandi laga að ákveða það. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það er mat Seðlabankans að ekki sé tilefni til að breyta þessum reglum nú, hvorki með því að innleiða nýjar hömlur né afnema þær sem fyrir eru.“

Þetta segir okkur, af því við erum bæði sammála um það, ég og hv. þingmaður, að fara eigi í að skoða kosti og galla, að ekki sé ráð að láta þetta mál bara vera í höndunum á Seðlabanka eins og mér heyrist á viðskiptaráðherra. Þess vegna er ástæða til að samþykkja þessa tillögu þannig að fleiri aðilar komi að málinu, t.d. aðilar vinnumarkaðarins, Fjármálaeftirlitið og fulltrúar Samtaka og verðbréfafyrirtækja og að við hér á Alþingi setjum leiðsögn um hvernig eigi að ganga í þessa skoðun sem tillagan kveður á um.