131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:43]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Búið er að flytja æðimörg þingmál um afnám verðtryggingar í gegnum tíðina. Ég man fyrst eftir umræðu um mál af þessu tagi einhvern tímann á árinu 1992–1993. Þá voru nú ekki ómerkari flytjendur á því máli en Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Síðan hafa komið fram þingmál hér, örugglega nokkuð oft.

Ég hef þá afstöðu til þessa máls og vil koma henni hér til skila sem er svona prinsippafstaða, að verðtrygging á fjárskuldbindingum sé óeðlileg. Í markaðsþjóðfélagi eins og við lifum í taka allir hlutir verð. Það er mjög óeðlilegt að taka fjármunina þar út úr með alveg sérstökum hætti eins og hér hefur verið gert. Það var út af fyrir sig skiljanlegt á þeim tíma er allir fjármunir hefðu brunnið upp og menn fundu ekki leiðir til að skapa verðmætunum pláss í viðskiptunum, en sá tími er löngu liðinn. Nú stjórna menn því ekki lengur hvaða verðmæti eru í umferð með sama hætti og gert var þá. Verðmætin sem eru í umferð eru kannski meira orðin til vegna væntinga en af því að það séu raunveruleg verðmæti sem haldi endilega gildi sínu. Þess vegna verður það svolítið undarlegt þegar menn finna og halda við leið sem færir upp skuldir hjá fólki í takt við verðbólguna. Aukið er á verðbólguskrúfuna með því að hækka skuldir fólks vegna þess að verðbólgan er við lýði.

Þetta er auðvitað ekki skynsamlegt. Það segir sig sjálft að bara það að taka verðtrygginguna af mun ganga í lið með okkur í glímu við verðbólguna í framtíðinni. Ég held að það sé ekki ofmetið að þar séu á ferðinni hlutir sem skipta virkilega máli.

En það verður nú að segjast eins og er að mér finnst horfa skár með það að menn taki á þessu máli núna en hefur áður verið úr því að a.m.k. þrír flokkar hafa sérstaklega ályktað um þetta. Ég met það svo að Vinstri grænir muni ekki þykja ólíklegir til þess að vilja að þessi verðskrúfa verði af tekin. Ráðherra hefur sett af stað skoðun á þessu máli og úr því að þetta mál sem hér er til umræðu núna er á leiðinni til meðferðar í þingnefnd þá hljóta að fara fram umræður og þar að verða kallað eftir upplýsingum um það sem er að gerast á vegum ráðherrans eða þeirrar nefndar sem ráðherrann ætlar að eða er búinn að setja af stað í þessu máli.

Ég held þess vegna að ástæða sé til þess að vera svolítið bjartsýnni á það núna en áður að það verði eitthvað úr því að endurskoða þetta. Ég tek undir það að Alþingi þarf að veita hér ákveðna leiðsögn og sú leiðsögn ætti að felast í því að klára þetta mál, sem hér er til umfjöllunar í nefnd og koma því áfram til seinni umræðu í sölum Alþingis.

Það er í sjálfu sér ekki svo mikið fleira sem ég vildi segja um þetta. Ég tel að hið agnarlitla hagkerfi sem við höfum hér sé mjög vandmeðfarið. Við þurfum að sæta því að búast við því að íslenska krónan skoppi upp og niður eftir dyntum þeirra sem hamast hér á mörkuðunum. Við getum ekki treyst því til framtíðar að hér verði stöðugt verðlag, einfaldlega vegna þess að sá gjaldmiðill sem við hér treystum á hefur ekki burði til þess. Það er nokkuð sem við höfum valið okkur og ég geri ekki ráð fyrir að það breytist á næstunni. En ég tel að full ástæða sé til þess að muna eftir því og það er fyrirkvíðanlegt eftir þá miklu viðbótarskuldsetningu heimilanna sem hefur orðið núna á undanförnum missirum eftir að var farið að lána meira út á fasteignir en áður, að vita af því að næsta stóra verðbólguskot mun skila sér í mjög auknum skuldum heimilanna, kannski meira en bara nokkru sinni áður vegna þessara auknu skulda.

Það er ekki eðlilegt að hlutirnir gerist með þessum hætti og að þeir sem eiga eignir í samfélaginu skuli ekki sitja við sama borð gagnvart verðbólgunni sem geisar í þjóðfélaginu. Mér finnst þess vegna, þó ekki sé nema af prinsippástæðum, ástæða til þess að afnema verðtrygginguna þannig að hún verði ekki framkvæmd eins og nú. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að aðilar geri samninga sín á milli um lánskjör. En það er ekki ástæða til þess að ríkið beiti sér fyrir verðtryggingu eins og raunverulega hefur verið gert í þessu samfélagi. Ég held að full ástæða sé þess vegna til þess að samþykkja þessa tillögu sem hér er til umfjöllunar og að farið verði í það núna að skoða þessi mál til enda, gera það vel og þá trúi ég því að niðurstaðan verði sú að menn vilji draga verulega úr eða hætta alveg þeirri verðtryggingu sem hefur verið hér við líði á undanförnum árum.