131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:16]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti Vegna þeirrar stefnu sem umræðan hefur tekið finnst mér ég þurfa að taka aftur til máls. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að hann væri á móti verðtryggingu. Ég skil þau sjónarmið fullkomlega því lánin mundu styttast og vextirnir bíta ef ekki væri verðtrygging. Ég er ekki viss um að þeir sem tala fyrir þingsályktunartillögunni sjái þann flöt fyrir sér. Mér sýnist þeir aðallega tala fram og til baka um hagsmuni skuldaranna og vilji þeim allt hið besta. Ég sé ekki að það séu hagsmunir skuldaranna ef lánin styttast verulega og vextirnir bíta, en ég get alveg tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það sé skynsamlegt fyrir hagstjórnina. Ég er nú einu sinni þannig gerður að ég hugsa um hag skuldaranna líka og þess vegna vil ég hafa óbreytt kerfi.

Í mörgum löndum þar sem er ekki verðtrygging er gerviverðtrygging í því formi að menn eru með breytilega vexti sem byggja á Libor- eða Reibor-vöxtum hér á landi, þ.e. menn nota markaðsvexti í þjóðfélaginu sem grunn undir þá vexti sem teknir eru á óverðtryggðum lánum. Þetta er ekkert annað en verðtrygging, reyndar stundum svona og stundum hinsegin. Markaðsvextir fara yfirleitt nokkurn veginn eftir verðbólgu og eru eilítið þar fyrir ofan, að sjálfsögðu. Þar er því komin inn verðtrygging og hún er um allan heim. Og vegna þess hve verðbólga er lítil og mikið framboð af peningum um allan heim eru vextir núna lágir, Libor-vextirnir eru mjög lágir en þeir hafa hækkað og hafa verið hærri áður og munu hækka einhvern tíma.

Frummælandi málsins, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, talaði um að dráttarvextir væru mjög háir. Þeir eru að sjálfsögðu mjög háir en ég bendi á að dráttarvextir eru á vanskil og vanskil eru ekki eðlilegt ástand. Menn eiga ekki að lenda í vanskilum. Þegar menn taka lán lofa þeir að borga ákveðna upphæð í hverjum mánuði og það eiga menn að gera. Þeir eiga að standa við samninginn sem þeir gerðu. Sem betur fer eru vanskil að minnka og þar með dráttarvextir og ég vona að það heyri að jafnaði sögunni til.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um hvernig verðbólgan er mæld og þó að það sé kannski ekki alveg tengt málinu er það samt nokkuð tengt því, því hún er grundvöllur verðtryggingar. Ég vildi gjarnan ræða það enn einu sinni af því að ég hef sömu áhyggjur og hann af því hvernig verðbólgan er mæld og hef sagt það áður í ræðustól.

Síðastliðið sumar bauð KB-banki skyndilega miklu lægri vexti á lán til íbúðakaupa. Þetta þróaðist út í að það er lánað 100% og miklu lægri vextir sem ég hefði talið í einfeldni minni að væru til hagsbóta fyrir íbúðareigendur og mundi lækka húsnæðiskostnað. Það gerist ekki. Þetta er metið sem stórhækkun á húsnæðiskostnaði vegna þess að í kjölfarið hækkar íbúðaverð, sem hafði reyndar hækkað áður, þ.e. hækkunin á íbúðaverði hélt áfram.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hélt sérstakan fund um þetta og fékk fulltrúa Seðlabankans og Hagstofunnar á fund sinn. Þar var farið ítarlega í gegnum hvernig hagsbótin til heimilanna komi fram sem hækkun á húsnæðiskostnaði í vísitölunni. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki alveg fullkomlega sáttur og sannfærður við þær aðferðir sem Hagstofan notar til að meta hvernig heimilin í landinu hafa tapað eða grætt á breytingunni. Ég tel að húsnæðiskostnaðurinn sé ofmetinn í verðbólgunni, hann hafi lækkað vegna lækkandi vaxta, meira en Hagstofan gerir ráð fyrir.

Fram kom líka á fundinum að Seðlabankinn telur sér ekki heimilt að gera neinar athugasemdir við hvernig Hagstofan reiknar út vísitölu sína. Honum kemur það ekkert við, hann á ekki að hafa á því skoðun og hann tekur þær tölur hráar sem þaðan koma, þannig að þegar Seðlabankinn sér að verðbólgan er 4,5% með húsnæðiskostnaði og 2,3% án húsnæðiskostnaðar tekur hann 4,5%, en ekki 2,3%, sem væri mjög vel innan þeirra marka sem hann hefur sett um verðbólgu. Hann hækkar vextina á grunninum frá Hagstofunni og það veldur stórhækkun á gengi krónunnar og stórlækkun á gengi erlendra mynta og hefur valdið atvinnulífinu í landinu ómældum vandræðum.

Ég vil enn einu sinni beina því til Hagstofunnar að hún yfirfari reikninga sína og athugi hvort raunverulega sé verið að meta þá hagkvæmni sem heimilin í landinu fengu af lækkandi vöxtum sl. sumar og hvort það geti verið að húsnæðiskostnaðurinn hafi vaxið þegar heimilin fengu slíka kjarabót sem er umtalsverð. Ég hef farið í gegnum það. Um 85% af heimilum taka ekki lán. Einhverjir hafa skuldbreytt sér til mikilla hagsbóta og sá húsnæðiskostnaður sem hefur lækkað er ekki tekinn inn í myndina þegar menn skuldbreyta lánum og geta jafnvel keypt bíl fyrir mismuninn. Það er ekki tekið inn í dæmið að vextir hafi lækkað nema að litlu leyti og mjög seigfljótandi og það er ekki tekið mið af því að fólk getur ekki lengur ávaxtað eigið fé sem bundið er í íbúðunum með sama hætti og áður, þ.e. þeir vextir á eigið fé hafa lækkað en þeir eru alltaf fastir í útreikningum Hagstofunnar.

Ég vil að hagstofumenn skoði nákvæmlega hvernig þeir reikna vísitöluna vegna þeirra geigvænlegu áhrifa sem það hefur á ákvörðun Seðlabankans um hækkun á vöxtum. Einhvern tíma mun væntanlega íbúðarverð lækka, þá lækkar verðbólgan mjög hratt og þá þarf Seðlabankinn væntanlega að lækka vexti og verður gaman að vita hvað gerist þá.