131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:26]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um áhrif þess að afnema verðtrygginguna á dótagleði Íslendinga. Ég held því nefnilega fram að fleiri en útlendingar séu tortryggnir á verðtrygginguna og þar á meðal, sem betur fer, margir skuldarar þannig að þeir eru varkárir í að taka verðtryggð lán. (Gripið fram í: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn?) Það vill svo til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki samtengda skoðun og samtengdan heila eins og margir aðrir flokkar sem tala alltaf í nafni flokks síns eins og þeir hafi enga eigin sannfæringu. (Gripið fram í: … skot.) Þetta var skot á þá flokka sem segja: Við samfylkingarmenn.

Ég held að verðtryggingin sé nefnilega það skjól sem sparifjáreigendur, sem eru því miður allt of fáir en fer vonandi fjölgandi, hafa leitað til og treyst á. Jafnvel þegar verðbólgan er að miklu leyti farin treystir fjöldi fólks enn þá á verðtrygginguna og mér finnst allt í lagi að bjóða þann kost ef menn eru tilbúnir til að spara vegna þess.

Ég vil líka benda á að allir kostir eru til í myndinni. Menn geta haft verðtryggingu, menn geta tekið lán sem eru óverðtryggð og menn geta tekið lán í erlendri mynt. Það er því mikið af kostum í dag og ég sé enga ástæðu til að takmarka þá kosti sem í boði eru.