131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Nýtt tækifæri til náms.

144. mál
[17:47]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir að gera grein fyrir þingsályktunartillögu um ný tækifæri til náms. Ég held að flestallir séu á því að hugsunin á bak við tillöguna sé góð. Þó verður að halda því til haga að margt gott hefur verið gert og þá sérstaklega það átak sem þar er í gangi núna til að efla starfsnám og þar af leiðandi starfsmenntabrautir en um það er fjallað í lögum um framhaldsskóla, að þar þurfi vinnumarkaðurinn að koma betur að málinu með skólunum til að efla starfsnámið enn frekar.

Nefna mætti sem dæmi að þjónusta er ein mannfrekasta atvinnugrein þjóðfélagsins. Við sjáum þess ekki merki í skólakerfinu en það er metnaður til að breyta því. Ég held að það væri til bóta að víkka námið enn frekar út, eins og við erum alltaf að gera. Maður sér það þegar maður heimsækir framhaldsskóla landsins að þar er stöðugt reynt að koma betur til móts við nemendur sem vilja kannski ekki alveg fylgja norminu í námi sínu.

Það er afar mikilvægt að skólakerfið sé sveigjanlegt og opið fyrir þá sem vilja koma aftur til náms líkt og hv. þingmaður rakti áðan. Þetta hefur tekist ágætlega í mörgum skólum. Þar má nefna sem dæmi frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands sem svo sannarlega hefur staðið fyrir sínu. Þar hafa margir fundið sér vettvang. Ég man eftir því úr umræðunni um Tækniháskóla Íslands. Ég fór og hitti nemendur þar upp frá og sem sögðu margir hverjir að þeir hefðu eflaust ekki farið aftur í nám hefði sú deild ekki verið til staðar. Ég held að það sé mikilvægt að við höldum þeirri vinnu áfram, að standa vörð um nákvæmlega þessar stoðir. Það passa ekki allir nákvæmlega inn í kerfið eins og það er og þess vegna þarf að hlúa að því fólki.

Hv. þingmaður kom áðan inn á skýringar á því hvers vegna þeir sem detta út úr skóla komi ekki til náms aftur. Hann taldi upp nokkur atriði, til að mynda að liðinn sé langur tími frá því að nám hafi verið stundað. Ég held að oft og tíðum ráði hreinlega minnimáttarkennd þeirra nemenda. Þeir treysta sér ekki alveg inn í skólann aftur. Eitt atriði sem spilar þar inn í er t.d. bara tækniframfarir. Fólk sem ekki upplifði fartölvuvæðinguna sér skyndilega að tölvur eru orðnar allsráðandi í skólakerfinu. Ýmislegt af því tagi ýtir undir mikilvægi þess að fólk sæki sér endurmenntun og símenntun.

Ég vildi aðeins leggja örfá orð í belg. Við munum að sjálfsögðu senda þetta mál til umsagnar og það verður fróðlegt að sjá þær umsagnir sem berast.