131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Nýtt tækifæri til náms.

144. mál
[17:50]

Flm. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir við tillögunni og vænti þess að hv. þingmaður sem er varaformaður menntamálanefndar sjái til að þar verði hratt unnið, málið fari til umsagnar og síðar verði hægt að koma því í gegnum þingið.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að margt gott er gert í skólakerfinu og einnig utan þess, í hinu óformlega menntunarkerfi. En hér er fyrst og fremst lögð áhersla á að gert verði sérstakt átak gagnvart þeim hópi sem m.a. hv. þingmaður minntist á, t.d. þeim sem hættu námi fyrir frekar löngu síðan og hafa ekki tileinkað sér nýjustu tækni, t.d. tölvutækni. Við leggjum áherslu á að sérstakt menntunartilboð þurfi fyrir þann hóp og sérstaka hvatningu til að fá það fólk aftur til náms. Ég tel reyndar að samfélagið skuldi stórum hluta af þessu fólki það að gefa því nýtt tækifæri til náms. Margir hættu námi, m.a. vegna þess að þeir áttu við lestrarörðugleika eða stærðfræðiörðugleika að etja sem nú eru ýmis ráð komin við en voru ekki til staðar þegar viðkomandi voru í skóla. Auk þess voru kannski félagslegar aðstæður þannig að fólk hætti námi. Þetta fólk hefur sem því varla fengið tækifæri til að koma inn í skólann nema þá að fara í hefðbundið nám, sem hv. þingmaður lýsti ágætlega. Það býður kannski ekki upp á þær aðstæður sem henta viðkomandi. Ég held að um sé að ræða sérstakan hóp sem þurfi að skoða sérstaklega hvernig hægt er að sinna á sem bestan hátt. Eins og fram kom í máli mínu áðan er ég sannfærður um að það mun skila sér þannig að samfélagið í heild, auk viðkomandi einstaklinga, muni hagnast.