131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl.

217. mál
[18:10]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl. Auk mín eru flytjendur að þingsályktunartillögunni hv. þm. Halldór Blöndal, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason, Birkir J. Jónsson, Kjartan Ólafsson, Bjarni Benediktsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Mörður Árnason, Jón Gunnarsson, Jón Bjarnason og Guðjón Guðmundsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera á vegum Ríkisútvarpsins áætlun um árlegan kostnað við að senda dagskrár hljóðvarps og sjónvarps um gervitungl, svo og kostnað við búnað til að taka á móti þessum sendingum. Einnig komi fram áætlaður stofnkostnaður jarðstöðvar til að senda dagskrár til gervitungls og árlegur rekstrarkostnaður hennar.“

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál er flutt á Alþingi. Þess vegna mun ég stikla aðeins á stóru í þeirri greinargerð sem fylgt hefur og fylgdi málum þegar þau voru flutt áður á fyrri þingum.

Í greinargerð segir m.a.:

Mörg þúsund Íslendingar búa við þau skilyrði að hafa lélegan eða engan aðgang að útsendingum Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps. Það á við um fólk í dreifðum byggðum víða um land, þar sem móttökuskilyrði eru slæm, og Íslendinga erlendis, en stærsti hópurinn er sjómenn á farskipum og fiskiskipum. Dreifikerfi Ríkisútvarpsins hefur verið byggt upp til að ná til byggðra bóla, til fólks með fasta búsetu árið um kring, og með lágmarkstilkostnaði. Talið er að á um 70 sveitabæjum séu léleg eða engin skilyrði til móttöku sjónvarpsins.

Kunnugt er að Ríkisútvarpið hefur undanfarin ár átt í viðræðum við innlend og erlend fyrirtæki um sjónvarps- og útvarpssendingar um gervitungl. Einnig hefur Ríkisútvarpið staðið fyrir tilraunasendingum um gervitungl. Fyrstu tilraunasendingarnar hófust í október 2002 með efni frá kynningarmyndbandi en beinar sendingar fóru fram í tengslum við alþingiskosningarnar í maí 2003. Tilraunasendingarnar voru opnar en reglubundnar útsendingar á dagskrá sjónvarpsins þurfa að vera lokaðar af rétthafaástæðum og mun þá þurfa lykilkort til opnunar, auk hefðbundins búnaðar til móttöku gervitunglasendinga. Tilraunasendingarnar sýndu að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að senda dagskrá sjónvarps (og þar með útvarps) um gervitungl og ná þar með til hópa Íslendinga sem eru utan dreifikerfisins á Íslandi. Þó er ljóst að ekki nást þær sendingar alls staðar á landinu þar sem gervitunglin eru á jarðstöðubraut í um 36 þúsund km hæð yfir miðbaug og eru því ekki hátt á lofti séð frá Íslandi. Sjónlínu þarf frá móttökustað í gervitunglið og hæðir, fjöll og byggingar geta því skyggt á.

Í greinargerðinni kemur fram að viðbrögð við tilraunasendingunum voru skjót, jákvæð og gríðarmikil og svo aftur vonbrigði með að ekki væri um reglubundnar útsendingar að ræða. Talið er að hundruð sjómanna hafi fylgst með útsendingunum og að fjöldi Íslendinga erlendis hafi skipt þúsundum. Einnig heyrðist frá fólki á Íslandi sem hefur gervitungladisk en býr utan þess svæðis sem dreifikerfið nær til. Dagskrá tengd alþingiskosningunum ýtti verulega undir áhuga á tilraunasendingunum.

Af framansögðu er ljóst að gervitunglasendingar munu stórauka og bæta dreifingu Ríkisútvarpsins og ná til flestra þeirra sem nú fá lélega eða enga þjónustu. Þar má nefna íbúa afskekktra býla, sjómenn á hafi úti, sumarbústaðaeigendur og Íslendinga erlendis.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan hefur í framhaldi af sendingum frá alþingiskosningunum 2003 mikill áhugi vaxið bæði meðal sjómanna og Íslendinga búsettra erlendis um að þessu máli verði ýtt í framkvæmd. En það sem gerist fyrst og fremst með þessari þingsályktunartillögu er að menntamálaráðherra láti gera á vegum Ríkisútvarpsins áætlun um árlegan kostnað við að senda dagskrá um gervitungl. Það er það sem flutningsmenn vonast til og að málið nái fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað að lokinni umræðu til hv. menntamálanefndar og síðari umr.