131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Námskrá grunnskóla.

472. mál
[12:04]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, spyr hvort til standi að endurskoða námskrá grunnskóla og ef svo er, með hvaða hætti. Með stofnun námskrárdeildar menntamálaráðuneytisins árið 2000 var staðfest að endurskoðun námskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla væri viðvarandi verkefni og stöðugt þyrfti að fylgjast með framkvæmd námskráa. Er það gert með söfnun gagna úr skólum og með öflun ábendinga og tillagna frá samtökum kennara, starfsgreinaráði, félögum, stofnunum og einstaklingum sem hafa þekkingu á viðkomandi námsgreinum. Aðalnámskrá grunnskóla sem nú er í gildi var gefin út árið 1999.

Áætlun um breytta námsskipan til stúdentsprófs og aukna samfellu í skólastarfi var kynnt í skýrslu sérstakrar verkefnisstjórnar í ágúst 2004. Í samræmi við þá áætlun verður gert sérstakt átak í endurskoðun allra aðalnámskráa á þessu ári, þ.e. 2005. Meðal þess sem hin nýja skipan náms til stúdentsprófs felur í sér er að viðfangsefni byrjunaráfanga sem nú er á framhaldsskólastigi í ensku, dönsku, íslensku og stærðfræði verði að hluta eða öllu leyti færð niður á grunnskólastig. Námskröfur í þeim greinum verða ekki minni en í núverandi námsskipan frá grunnskóla til loka kjarnaáfanga í framhaldsskóla. Þá er stefnt að því að samfella í skólagöngu frá leikskóla til framhaldsskóla verði sem mest og endurtekningar verði sem minnstar milli skólastiga, án þess þó að það komi til með að ógna möguleikum þeirra einstaklinga sem þurfa á hægferðum að halda innan kerfisins. Verið er að reyna að koma til móts við mismunandi þarfir hinna mismunandi einstaklinga innan skólakerfisins.

Endurskoðun aðalnámskrár í grunnskóla verður unnin í nánu samhengi við endurskoðun aðalnámskrár framhaldsskóla og aðalnámskrár leikskóla. Þetta er allt í tengslum við þá sýn að við eigum að skoða skólakerfið og skólagönguna sem eina heild og reyna að auka samfelluna á milli leikskóla og grunnskóla og grunnskóla og framhaldsskóla.

Sérstök verkefnisstjórn sem starfar í menntamálaráðuneytinu hefur verið sett á laggirnar og verkefnastjóri hefur verið ráðinn til að stýra starfinu í samráði við námskrárdeild ráðuneytisins. Einnig hafa verið stofnaðir vinnuhópar til að endurrita námskrár á hverju námssviði með hliðsjón af tillögum verkefnisstjórnar. Í hverjum vinnuhópi eru 3–5 fagmenn. Ráðuneytið velur formann vinnuhópanna en aðrir eru valdir í samráði við fagfélög kennara á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi.

Fyrstu hóparnir hófust handa í lok janúar sl. og er gert ráð fyrir að fleiri hópar komi til starfa á næstu vikum, t.d. undirhópar á einstökum námsgreinasviðum svo sem í tungumálum, náttúrufræði og listgreinum. Þá verður settur upp starfshópur um skil leikskóla og grunnskóla og hópar um þverfagleg málefni, svo sem um sérkennslu, fjölmenningu, nýbúafræðslu og fleira. Vinnuhóparnir munu skila tillögum til verkefnastjórnar fyrir 15. júlí næstkomandi en stefnt er að útgáfu nýrrar aðalnámskrár fyrir grunnskóla í byrjun árs 2006. Að því er stefnt. Þá fer í hönd kynning nýrrar námskrár, endurskoðun námsgagna og endurmenntun kennara samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar, en það eru lykilþættir til þess að hin nýja og breytta námsskipan til stúdentsprófs komi til með að ganga upp og við komum til með að meta hvernig það ferli er á veg komið þegar þar að kemur.

Vinnuhóparnir hafa fengið starfslýsingar sem sérsniðnar eru fyrir hverja námsgrein og/eða greinasvið. Staða námsgreina er mismunandi í skólunum og ábendingar sem borist hafa eru oft og tíðum afar ólíkar eftir greinum. Allir munu vinnuhóparnir þó fyrst og fremst huga að samfellu námsþátta í skólakerfinu.

Ekki er gert ráð fyrir meginbreytingu á þeirri menntastefnu sem fylgt hefur verið síðustu ár, heldur er þetta þróun og ákveðið ferli sem er í gangi og sjálfsagt að taka næstu skref. Í ferlinu verður hins vegar haldið áfram að safna ábendingum og tillögum sem nýtast við frekari stefnumörkun í ráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Ég hef í svari mínu gert grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem höfð eru að leiðarljósi og þeirri vinnutilhögun sem notuð er við endurskoðun námskrár grunnskóla í tengslum við breytingar á námsskipan til stúdentsprófs. Umfangsmikið og vel skipulagt starf er í fullum gangi á vegum ráðuneytisins vegna þessa. Hver nákvæm efnisleg niðurstaða undirskoðunarinnar verður er vitanlega ekki hægt að svara á þessari stundu. Verkið er í höndum fagmanna og afstaða verður tekin þegar tillögur þeirra liggja fyrir.